Hagnaður fjárfestingafélagsins Snæbóls jókst í 4,45 milljarða króna árið 2020 úr 1,42 milljörðum árið 2019. Arðsemi eiginfjár að með töldu víkjandi láni var 30 prósent á árinu 2020.

Snæból er í eigu hjónanna Steinunnar Jónsdóttur og Finns Reyrs Stefánssonar. Steinunn er dóttir Jóns Helga Guðmundssonar, stjórnarformanns Norvik-samstæðunnar sem meðal annars á Byko.

Hagnað Snæbóls á árinu 2020 má annars vegar reka til þess að afkoma fjárfestingareigna nam 2,1 milljarði króna og afkoma dóttur- og hlutdeildarfélaga var tveir milljarðar króna. Árið áður skilaði afkoma fjárfestingareigna 1,7 milljarða hagnaði en dóttur- og hlutdeildarfélög voru rekin með 392 milljón króna tapi.

Eignir Snæbóls voru metnar á 17,2 milljarða króna árið 2020 samanborið við 12,7 milljarða árið áður. Fjárfestingareignir jukust um 4,6 milljarða á milli ára og voru metnar á 15,6 milljarðar við lok síðasta árs. Handbært fé var tæplega 1,5 milljarðar króna á sama tíma.

Eigið fé félagsins var 15,9 milljarðar við lok árs 2020 og einu skuldirnar voru víkjandi lán frá hluthöfum fyrir 1,2 milljarða króna sem bera ekki vexti.

Eiga í Sjóva fyrir fjóra milljarða

Snæból er meðal annars næststærsti eigandi Sjóvar með 9,9 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins nú er 4,2 milljarðar króna. Fjárfestingafélagið á jafnframt helmings hlut í fjárfestingafélaginu Sigla sem meðal annars er tíundi stærsti hluthafi Regins með 3,4 prósenta hlut. Markaðsvirði hlutarins er nú 1,4 milljarðar króna.

Eignarhlutir Snæbóls í skráðum félögum voru metnir á 5,1 milljarð króna við lok árs 2020, hlutir í óskráðum félögum á 6,2 milljarða og hlutir í dóttur- og hlutdeildarfélög voru metnir á 3,4 milljarð króna. Þá átti fjárfestingafélagið 684 milljónir króna í fjárfestingasjóðum.

Fram kemur í ársreikningi að Snæból styrkti góðgerðamál um 53,3 milljónir á árinu 2020 samanborið við 16,5 milljón króna í styrki árið áður.