Fjárfestingafélagið Snæból, sem er í eigu hjónanna Finns Reyrs Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur, hagnaðist um liðlega 1,4 milljarða króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Til samanburðar tapaði félagið rúmlega 500 milljónum króna árið 2018.

Afkoma Snæbóls af fjárfestingareignum var jákvæð um rúma 1,7 milljarða króna í fyrra og þá nam arður af slíkum eignum 108 milljónum króna. Afkoma félagsins af dóttur- og hlutdeildarfélögum var hins vegar neikvæð um tæpar 392 milljónir króna.

Snæból átti eignir upp á samanlagt 12,7 milljarða króna í lok síðasta árs en þar af nema fjárfestingareignir félagsins 11,1 milljarði króna. Eigið fé þess er 11,5 milljarðar króna en einu langtímaskuldirnar er víkjandi lán frá eigendum sem stóð í nærri 1,2 milljörðum króna í lok árs 2019.

Snæból er á meðal stærstu hluthafa Sjóvár með 9,5 prósenta hlut auk þess sem það seldi nýverið allan 7,5 prósenta hlut sinn í Heimavöllum til norska leigufélagsins Fredensborg. Fjárfestingafélagið hefur jafnframt látið til sín taka í ýmsum fasteignaverkefnum.