Smálánafyrirtækið Ecommerce áfrýjar niðurstöðu Neytendastofu um að fyrirtækinu beri að fylgja íslenskum lögum í viðskiptum við íslenska neytendur. Fyrirtækið er staðsett í Danmörku en rekur fimm smálánafyrirtæki á Íslandi. „Við teljum að dönsk lög, en ekki íslensk, gildi um þá samninga sem við höfum gert við viðskiptavini okkar,“ segir Ondrej Smakal, forstjóri Ecommerce, í fréttatilkynningu.

Dönsk lög gildi um starfsemina

Ákvörðun Neytendastofu kveður á um að félagið eigi að lúta íslensku eftirliti og íslenskum úrskurðum. Emcommerce segist hafa fallist á flestar athugasemdir Neytendastofu en sé ósammála um að íslensk lög gildi um starfsemi þeirra. „Enda teljum við að vísa eigi til danskra stofnana þar að lútandi,“ segir Ondrej.

Ondrej segir nauðsynlegt að fá skorið úr þessu lagalega álitaefni og áfrýjar því niðurstöðunni til áfrýjunarnefndar Neytendastofu. „Þangað til að úrskurður fæst munum við að sjálfsögðu halda áfram að gera okkar til þess að samstarfið við Neytendastofu verði sem best.“