Skiptum á smálánafyrirtækinu Kredia lýkur í desember en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotaskipta vorið 2017.

Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra stefnir í að niðurstaðan verði sú að að lýstar kröfur nemi 252 milljónum króna og engar eignir finnist í búinu.

Kredia er enn í rekstri en hefur flutt aðsetur sitt til Danmerkur. Félagið heldur úti vefsíðu á íslensku en lénið er skráð í Danmörku.

Í frétt Kjarnans frá árinu 2014 kom fram að eigandi smálánafyrirtækjanna Kredia og Smálán væri Mario Magela, fjárfestir frá Slóvakíu, sem er með víðtæka smálánastarfsemi í Tékklandi og Slóvakíu. Hann hefði keypt félögin af Leifi Alexander Haraldssyni í árslok 2013.