Tveimur innherjum sem búa yfir sömu innherjaupplýsingum er heimilt að eiga viðskipti sín á milli, að öðrum skilyrðum uppfylltum, samkvæmt nýlegum dómi Landsréttar. Með dómnum er áralöng óljós réttarstaða innherja skýrð.

Landsréttur sýknaði um miðjan síðasta mánuð Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings banka, af ákæru um innherjasvik þegar hann framseldi eignarhaldsfélagi í sinni eigu hlutabréf í bankanum fyrir samanlagt 570 milljónir króna í ágúst árið 2008.

Ákæruvaldið byggði á því að á þeim tíma hefði Hreiðar Már búið yfir innherjaupplýsingum sem lutu að því að „skráð markaðsverð hlutabréfa í bankanum gaf ranga mynd af verðmæti þeirra og hærri en efni stóðu til vegna langvarandi og stórfelldrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum“ sem þá hefði staðið yfir að minnsta kosti frá því í nóvember árið 2007 og hann hefði sjálfur átt þátt í.

Umrædd viðskipti mátti rekja til kauprétta sem Hreiðari Má höfðu verið veittir á árinu 2004 en í kjölfar innlausnar hluta þeirra í ágúst 2008 framseldi hann hlutabréfin til eignarhaldsfélags í sinni í eigu.

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu bar Hreiðar Már því meðal annars við að í tilfellum þar sem kaupandi og seljandi hlutabréfa byggju yfir sömu innherjaupplýsingum gæti ekki verið um svik eða misnotkun að ræða. Ekki fengist staðist að traust og trúverðugleiki verðbréfamarkaðarins bæði hnekki af slíkum viðskiptum.

Engin blekking

Héraðsdómur Reykjavíkur sakfelldi Hreiðar Má - með þeim rökstuðningi að innherjasvikaákvæði verðbréfaviðskiptalaga væri fortakslaust þegar það mælti fyrir um að innherja væri óheimilt að ráðstafa fjármálagerningum fyrir eigin reikning ef hann byggi yfir innherjaupplýsingum - en Landsréttur komst hins vegar að öndverðri niðurstöðu.

„Þegar horft er á atvik málsins í heild og til þeirra hagsmuna sem reglum um innherjaviðskipti er ætlað að vernda verður ákvæðið því ekki skýrt þannig að það eigi við um innbyrðis viðskipti þeirra sem búa yfir sömu innherjaupplýsingum þegar þeir eiga viðskipti með fjármálagerning,“ sagði í dómi Landsréttar.

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms sem hafði sakfellt Hreiðar Má fyrir innherjasvik.
Fréttablaðið/Ernir

Því til viðbótar benti rétturinn á að engin blekking hefði falist í sölu hlutabréfanna gagnvart öðrum fjárfestum þegar tillit væri tekið til ástæðna sölunnar og opinberra tilkynninga um hana.

Gengur of langt

Stefán Orri Ólafsson, meðeigandi á LEX lögmannsstofu, segir dóm Landsréttar skýra áður óljósa réttarstöðu innherja.

Orðalag innherjasvikaákvæðis verðbréfaviðskiptalaga geri engan áskilnað um að innherji hafi nýtt sér innherjaupplýsingar til þess að gerast sekur um innherjasvik. Þess í stað sé nægilegt að innherjinn hafi búið yfir slíkum upplýsingum á þeim tíma þegar viðskipti hafi átt sér stað.

Dómur Landsréttar þýði hins vegar að ekki sé útilokað að þrátt fyrir umrætt orðalag ákvæðisins geti innherji átt viðskipti þegar hann býr yfir innherjaupplýsingum að öðrum skilyrðum uppfylltum.

Stefán Orri Ólafsson, lögmaður og meðeigandi á LEX lögmannsstofu.

Stefán Orri bendir á að orðalag ákvæðisins hafi af mörgum verið talið ganga helst til of langt með þeim afleiðingum að það geti girt fyrir eðlileg viðskipti þegar innherji býr yfir innherjaupplýsingum en beitir engum svikum. Það geti til dæmis átt við í tilfellum þegar tveir innherjar búa yfir nákvæmlega sömu innherjaupplýsingum og vilja eiga viðskipti.

Sem dæmi sé nýting innherjaupplýsinga gerð að skilyrði innherjasvika í markaðssvikatilskipun Evrópusambandsins frá árinu 2003 sem núgildandi innherjasvikaákvæði verðbréfaviðskiptalaganna á rætur sínar að rekja til.

„Niðurstaða Landsréttar er því eðlileg enda fer hún í engu gegn þeim verndarhagsmunum sem bannreglu innherjasvikaákvæðisins er ætlað að gæta þar sem markaðurinn virðist hafa verið upplýstur að öllu leyti um þessi tilteknu viðskipti.

Þá er niðurstaðan í samræmi við dómaframkvæmd bæði Evrópudómstólsins sem og Hæstaréttar Danmerkur.

Niðurstaðan er auk þess í samræmi við þá réttarstöðu sem verður hér á landi þegar ákvæði markaðssvikareglugerðar Evrópusambandsins nr. 596/2014 hafa verið innleidd í íslensk lög,“ segir hann.

Samkvæmt umræddri reglugerð, sem er stefnt að því að innleiða í íslenskan rétt í lok ársins, er nýting innherjaupplýsinga forsenda þess að innherjar geti gerst sekir um innherjasvik.