Leiðandi hagvísir greiningarfyrirtækisins Analytica var gefinn út í gær. Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, segir að hagvísirinn sýni að skýr merki séu um að efnahagsbati sé í gangi.

„Helstu niðurstöður hagvísisins eru þær að það er efnahagsbati í gangi og það er ekkert sem bendir til þess að það sé neinn viðsnúningur á þeirri þróun,“ segir Yngvi og bætir við að horfurnar í efnahagslífinu á komandi misserum séu nokkuð jákvæðar.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica.

Aðspurður um helstu ástæðurnar fyrir hækkuninni segir Yngvi að þær séu í raun margþættar.

„Í fyrsta lagi eru umsvif innanlands að aukast. Það sjáum við bæði á því að innflutningur er að vaxa og einnig á fleiri undirliggjandi þáttum.“

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hagvísinn vera ákveðna vísbendingu um að það séu bjartari tímar fram undan.

„Þetta er ekki fyrsta vísbending þess efnis, en taka ber tillit til þess að það ríkir óvissa um framvinduna eins og sakir standa, þar sem samfélagið allt er enn á ný í mjög hörðum sóttvarnaaðgerðum sem hafa víðtæk áhrif,“ segir Ásdís og bætir við að taka þurfi inn í myndina efnahagslegu áhrifin af því þegar sóttvarnaaðgerðir eru hertar, enda blasi við að takmarkað rými sé hjá ríkissjóði til að bæta efnahagslegan kostnað nú þegar við erum stödd á ári tvö í þessum heimsfaraldri.

Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

„Við teljum hins vegar æskilegt að það verði komið strax til móts við þau fyrirtæki sem eru enn að sæta mjög stífum sóttvarnaaðgerðum. Þá er rekstur margra fyrirtækja erfiður vegna fjölda starfsmanna í sóttkví eða einangrun og mikilvægt að stjórnvöld komi til móts við þann kostnað sem fellur á atvinnulífið vegna einangrunar líkt og gert er með sóttkví. Fordæmi þess efnis er að finna víða, meðal annars á Norðurlöndunum en þar hafa stjórnvöld stigið inn og bætt fyrirtækjum tjónið að hluta.“

Yngvi bætir við að það séu sex undirliggjandi þættir sem ganga inn í vísitöluna. „Fyrir utan aflamagn þá eru vöruinnflutningur og ferðamannafjöldi þeir þættir sem eru mikilvægustu þættirnir í hækkuninni núna. Það hefur átt sér stað mikil aukning í ferðamannafjölda miðað við það sem verið hefur eftir að Covid skall á. Þá má nefna að loðnuaflinn í desember er hinn mesti í þeim mánuði frá árinu 1988.“

Ásdís bætir við að áhrifa faraldursins gæti víða og endanlegu áhrifin komi ekki í ljós fyrr en þetta ástand er yfirstaðið. Áhrif á ríkissjóð hlaupa þegar á hundruðum milljarða. „Beinar efnahagsaðgerðir eru metnar á ríflega 200 milljarða og svo eru áhrifin á rekstur ríkissjóðs ríflega 200 milljarðar til viðbótar vegna minnkandi skatttekna og aukinna útgjalda, meðal annars vegna vaxandi atvinnuleysis á árunum 2020-2021. Heildaráhrifin á ríkissjóð eru ríflega 400 milljarðar króna.“

Yngvi segir jafnframt að sú mikla óvissa sem sé uppi um þessar mundir spili ekki beint inn í útreikninginn á vísitölunni en geri það óbeint. „Óvissan birtist í væntingavísitölu Gallup að einhverju leyti. Ég reikna með því að þessi óvissa bitni á væntingum almennings. Við höfum verið að sjá að vísitalan hefur verið að gefa aðeins eftir og það geti endurspeglað ákveðið hik í ákvarðanatöku meðal almennings.“

„Allar forsendur eru til að ætla að efnahagslífið geti þá tekið hratt við sér og langtímahorfur góðar ef við tökum skynsamar ákvarðanir í náinni framtíð, eins og hvað snýr að kjarasamningum svo dæmi sé tekið."

Ásdís kveðst vera bjartsýn á framhaldið. „Ljóst var frá upphafi að forsenda þess að við gætum vaxið sem hraðast út úr vandanum væri að treysta á vöxt atvinnulífsins. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda hafa gegnt mikilvægu hlutverki og átt ríkan þátt í því að styðja við fyrirtæki og heimili sem hafa orðið fyrir tekjubresti. Það eru því jákvæð tíðindi að atvinnulífið sé að taka við sér, sem skilar sér í formi vaxandi tekna til samfélagsins og fjölgunar starfa. Við vonum öll að þessi fjórða bylgja sé jafnframt sú síðasta. Hvort svo sé er megin óvissuþátturinn varðandi framvinduna. Allar forsendur eru til að ætla að efnahagslífið geti þá tekið hratt við sér og langtímahorfur góðar ef við tökum skynsamar ákvarðanir í náinni framtíð, eins og hvað snýr að kjarasamningum svo dæmi sé tekið. Ljóst er að þó staðan sé afskaplega ólík milli atvinnugreina, horft til dæmis til ferðaþjónustunnar sem hefur meira eða minna legið í dvala síðastliðin ár, þá standa innviðirnir traustum fótum og mikil geta til að taka á móti miklum fjölda ferðamanna er til staðar, en það, líkt og með annað, veltur á því hvenær við kveðjum endanlega þennan faraldur.“