Skuldabréfaútboði WOW air lýkur á þriðjudaginn en nú þegar liggur fyrir að útgáfan verður að lágmarki 50 milljónir evra.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá WOW air.

Fréttablaðið hefur greint frá gangi mála frá því að WOW air ákvað að ráðast í útgáfu skuldabréfs fyrir mánuði síðan. Greint var frá því í dag að WOW air væri á lokametrunum með að sækja sér nægjanlegt fjármagn svo að lágmarksstærð yfirstandandi skuldabréfaútboðsins, 50 milljónir evra, jafnvirði um 6,5 milljarða króna, yrði náð. 

Frétt Fréttablaðsins: Skúli nálgast endamarkið

Skuldabréfafjármögnun WOW air er hugsuð sem brúarfjármögnun fram að áformuðu hlutafjárútboði. Einn af þeim möguleikum sem stjórnendur og ráðgjafar WOW air skoðuðu af alvöru í vikunni var að fá stóru viðskiptabankana þrjá til að koma að fjármögnun félagsins í tengslum við skuldabréfaútboðið. Þær hugmyndir fólust í sambankaláni, sem myndi tryggja að lágmarksstærð útboðsins yrði náð, en fljótlega varð hins vegar ljóst að ekkert yrði af þeim áformum þar sem mismikill áhugi var fyrir því hjá bönkunum að hafa aðkomu að slíkri lánveitingu.

Norska verðbréfafyrirtækið Pareto hefur haft yfirumsjón með skuldabréfaútboðinu en WOW air hefur einnig haft íslenska ráðgjafa á sínum snærum, meðal annars Arctica Finance og Fossa markaði.