WOW air stefnir að því að sækja allt að 300 milljónir dala, eða sem nemur 33 milljörðum króna, í hlutafjárútboði innan 18 mánaða að sögn Skúla Mogensen, eiganda og forstjóra. Þetta segir Skúli í samtali við Financial Times

Stefnir Skúli að því að selja minna en helming hlutafjár í félaginu til að afla slíkra fjárhæða. Þá viðurkennir hann að WOW air hafi ekki náð að halda aftur af kostnaðarhækkunum. „Eldsneytisverð hefur klárlega unnið gegn okkur, við erum ekki varin fyrir því. Við erum að endurskoða þá stefnu. “

Hins vegar eru bundnar vonir við auknar viðbótartekjur. Viðbótartekjur WOW air hafa vaxið mikið frá árslokum 2016 og gera spár flugfélagsins ráð fyrir að á þessu ári muni það hafa mestar viðbótartekjur á hvern farþega í fluggeiranum. „Þetta er okkar leið til að keppa við stærstu flugfélögin,“ segir Skúli.

Eins og greint var frá fyrir helgi lýkur skuldabréfaútboði WOW air á morgun en nú þegar liggur fyrir að útgáfan verður að lágmarki 50 milljónir evra.

Frétt Fréttablaðsins: Skúli landar fjármögnun WOW air