Skúli Mogensen og helstu lykilstarfsmenn WOW air, sem var tekið til gjaldþrotaskipta í síðustu viku, hyggjast endurvekja rekstur flugfélagsins. Þeir leita nú fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, jafnvirði um 4,8 milljarða króna, til þess að standa straum af rekstrinum fyrstu misserin.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í fjárfestakynningu, dagsettri í gær, sem Skúli hefur látið útbúa um nýja lággjaldaflugfélagið. Stefnir félagið að því að reka harða lággjaldastefnu í líkingu við þá sem WOW air hafi rekið með góðum árangri á fyrstu árum þess.
Í kynningunni, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að nýja félagið muni til að byrja með, eftir að hafa sótt sér flugrekstrarleyfi, reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo.
Fyrstu tólf vikurnar stefni nýja félagið að því að sinna leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en í lok næsta júnímánaðar sé gert ráð fyrir að vélar félagsins fljúgi frá Keflavíkurflugvelli til þrettán áfangastaða víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku, nánar tiltekið til Lundúna, Parísar, Amsterdam, Berlínar, Kaupmannahafnar, Dublinar, Tenerife, Alicante, Frankfurt og Barcelona í Evrópu og New York, Baltimore og Boston í Bandaríkjunum.
Gera rekstraráætlanir félagsins jafnframt ráð fyrir því að sjö vélar verði í flota flugfélagsins vorið 2020 og tíu vélar á sama tíma árið 2021.
Skúli og aðrir sem munu koma að stofnun félagsins, svo sem lykilstarfsmenn WOW air, munu eiga 51 prósents hlut í nýja félaginu á meðan þeir fjárfestar sem leggja félaginu til 40 milljónir dala munu fara með 49 prósenta hlut, að því er fram kemur í kynningunni.
Leitar félagið nú fjármögnunar upp á 40 milljónir dala, eins og áður sagði, til þess að fjármagna reksturinn þar til lausafjárstaða þess verði orðin jákvæð á öðrum ársfjórðungi næsta árs.
Í fjárfestakynningunni er sérstaklega tekið fram að framkvæmdastjórn félagsins muni taka á sig þrjátíu prósenta launalækkun fyrsta rekstrarárið.
Þá stefni félagið að því að öðlast flugrekstrarleyfi á þeim forsendum að það sinni fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag, því takist að kaupa helstu eignir þrotabús WOW air, þar á meðal WOW-vörumerkið, það nái samkomulagi við leigusala um rekstur á fimm flugvélum og enn fremur að félaginu takist að sækja sér nægt fjármagn til þess að hefja starfsemi.

Skúli Mogensen, sem stofnaði WOW air árið 2011, verður forstjóri nýja flugfélagsins en aðrir helstu stjórnendur þess verða þau Sveinn Ingi Steinþórsson, Jónína Guðmundsdóttir, Arnar Már Magnússon, Daníel Snæbjörnsson, Snorri Pétur Eggertsson, Páll Borg og Svanhvít Friðriksdóttir.
Er tekið fram í fjárfestakynningunni að teymið hafi lært sína lexíu og muni halda sig við hreinræktaða lággjaldastefnu. Auk kostnaðaraðhalds verði áhersla lögð á að auka beina sölu á vef flugfélagsins sem og viðbótartekjur þess. Er bent á að WOW air hafi haft mestar viðbótartekjur á hvern farþega í fluggeiranum.
Sem kunnugt er lauk margra mánaða tilraunum stjórnenda WOW air til þess að bjarga rekstri félagsins, með því að fá nýja fjárfesta til liðs við það, síðasta fimmtudagsmorgun, fyrir réttri viku, eftir að félagið gat ekki staðið í skilum á greiðslum að fjárhæð samtals um 300 milljónir króna, meðal annars til stærsta leigusalans, Air Lease Corporation.
Vélar sem WOW air hafði til afnota hjá bandaríska félaginu voru fyrr um nóttina kyrrsettar vestanhafs og í kjölfarið skilaði félagið flugrekstrarleyfi sínu til Samgöngustofu. Var félagið gefið upp til gjaldþrotaskipta hjá Héraðsdómi Reykjavíkur síðar um daginn og lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson skipaðir skiptastjórar yfir þrotabúinu.