30 lóðir í Hvammsvík sem Skúli Mogensen bauð til sölu fyrir helgi seldust hratt. Fyrir höfðu átta lóðir verið teknar frá. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins.

Verðið var frá sex og til 15 milljónir króna, stærð lóðanna frá hálfum til eins hektara og reisa má allt að 300 fermetra hús á hverri lóð.

„Eftirspurnin kom alls staðar að, frá höfuðborgarsvæðinu, að norðan og frá útlöndum. Þetta kom mér glettilega á óvart en það er augljóst að fyrirhuguð uppbygging veitingastaðar og sjóbaða, auk náttúrufegurðar og nálægðar við höfuðborgina, trekkti að,“ segir Gunnar Sverrir Harðarson fasteignasali við Viðskiptablaðið.