Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lék á alls oddi á Peningamálafundi Viðskiptaráðs í dag. Hann sagði meðal annars: „Ef Skúli Mogensen hefði verið seðlabankastjóri þá hefði hrunið orðið 2010 en ekki 2008.”

Stefán Jóhann Stefánsson, ritstjóri hjá Seðlabankanum, sagði á Facebook, að það hefði verið hlegið töluvert meira á fundinum en áður. „Hagfræðin þarf því ekki alltaf að vera „hin döpru vísindi“.

Ummæli Ásgeirs vísa til þess að Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi flugfélagsins WOW air, náði að halda flugfélaginu á lofti um nokkuð langt skeið þrátt fyrir að ljóst væri að fyrirtækið væri í raun gjaldþrota.

Má þar nefna sem dæmi að Isavia samþykkti að lána flugfélaginu verulegar fjárhæðir. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Isavia hafi afskrifað 2,1 milljarða króna vegna gjaldþrots WOW air.