Eignarhaldsfélag Skúla Mogensen, Títan Fjárfestingafélag ehf., missir yfirráð sín í WOW air. Það gerist þegar fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboði WOW air í september taka félagið yfir og breyta kröfum sínum í hlutafé. Ákvörðun þar að lútandi hefur verið tekin. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.

Sjá einnig: Kurr í starfsfólki: „Ekki hugsunin að ráðast á WOW“

Fram kemur að Skúli verði áfram hluthafi í WOW en hann keypti um 11% bréfanna sem voru boðin til kaups í skuldabréfaútboðinu.

Í fréttinni segir að fulltrúi nýrra eigenda, sem ekki kemur fram hver er, vinni að því að semja við aðra kröfuhafa félagsins um að þeir breyti skuldum WOW við þá í hlutafé.

Þrátt fyrir þessi tíðindi stendur eftir að tryggja rekstur flugfélagsins með fjármagni.

„Ég hef mjög gaman af því sem ég er að gera og hef fulla trú á félaginu. Augljóslega verður það í höndum nýrra eigenda, ég verð áfram hluthafi en einn af mörgum, og ég tel það styrk fyrir félagið að fá marga hluthafa að félaginu. Það verður í þeirra höndum að ákveða framhaldið,“ sagði Skúli í samtali við RÚV fyrr í dag.