Skúli Mogensen, stofnandi WOW air, lagði fram kröfur á þrotabú flugfélagsins sem samtals nema 3,8 milljörðum króna. Þetta kemur fram í kröfuskrá þrotabúsins sem lögð verður fram á skiptafundi sem fram fer næsta föstudag.

Skúli lagði fram tvær kröfur í eigin nafni, annars vegar 775 milljónir króna og hins vegar 22 milljónir. Í gegnum Títan fjárfestingafélag og Títan B lagði Skúli fram kröfur upp á samtals 2 milljarða króna. Þá kom einnig fram krafa frá fasteignafélaginu TF KEF sem er í eigu Skúla en hún nam alls 1.031 milljón króna. Heildarupphæðin nemur sem áður segir 3,8 milljörðum.

Sex þúsund kröfur upp á samtals 138 milljarða bárust þrotabúi hins fallna flugfélags WOW AIR, við lok kröfulýsingarfrests þann 3. ágúst síðastliðinn. Af lýstum kröfum í búið eru rúmlega fimm milljarðar forgangskröfur, vegna launa og lífeyrisiðgjalda.