Skúli Mogensen, forstjóri og eini eigandi WOW air, fjárfesti fyrir 5,5 milljónir evra, jafnvirði ríflega 770 milljóna króna, í skuldabréfaútboði flugfélagsins sem lauk um miðjan septembermánuð. Þetta upplýsir hann um í bréfi sem hann skrifaði öðrum skuldabréfaeigendum félagsins fyrr í dag.

Hann segist í bréfinu, sem Markaðurinn hefur undir höndum, hafa verið sannfærður um að fjármögnunin sem félagið tryggði sér í umræddu útboði - en hún nam um 60 milljónum evra - myndi duga til þess að félagið gæti skráð hlutabréf sín á markað á næstu átján mánuðum.

Skuldabréfaeigendurnir geti treyst því að forsvarsmenn flugfélagsins séu að leiða allra mögulegra leiða til þess að tryggja áframhaldandi rekstur WOW air.

Skúli skrifar einnig að „nokkrir aðilar“ hafi sýnt WOW air áhuga, þar á meðal Icelandair Group.

Skúli segir í bréfinu að frá því að skuldabréfaútboðinu lauk í september hafi aðstæður því miður breyst til hins verra og „við vinnum nú hörðum höndum að því að tryggja langtímafjármögnun WOW air,“ skrifar hann.

Hann nefnir að á meðan útboðinu stóð og í kjölfar þess hafi afar neikvætt umtal verið um fjárhagsstöðu WOW air. Umtalið hafi að endingu haft verri áhrif á sölu og lausasfjárstöðu flugfélagsins en gert hafði verið ráð fyrir.

Afleiðingin sé sú að uppgjör WOW air fyrir fjórða ársfjórðung sé merkjanlega verra en upphaflega hafði verið búist við.

None
Ljósmynd/WOW air

Ekki bætti gjaldþrot Primera Air úr skák, að sögn Skúla. 

Hann greinir einnig frá því að flugfélagið hafi verið að ganga frá samningi um sölu og endurleigu á flugvélum sem hafi síðar meir ekki gengið eftir. Það hafi gert það að verkum að félagið hafi ekki fengið innspýtingu upp á 25 milljónir dala, jafnvirði ríflega þriggja milljarða króna, eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Til viðbótar segir Skúli að kröfuhafar - sem og stjórnvöld - hafi fylgst náið með stöðu mála og krafist strangari greiðsluskilmála en áður. Það hafi sett aukinn þrýsting á sjóðstreymi félagsins.

Einnig hafi olíuverð náð nýjum hæðum í kjölfar skuldabréfaútboðsins. Þrátt fyrir að verðið hafi lækkað nokkuð undanfarið gæti áhrifa hækkananna enn í rekstri flugfélagsins.

Skúli skrifar að stjórnendur WOW air hafi undanfarið unnið af kostgæfni að því að leita fjármagns. Félagið hafi vakið áhuga nokkurra aðila (e. number of parties), þar á meðal Icelandair Group, eins og fram hefur komið.

Í hádeginu í gær upplýsti Icelandair Group um að ekki tækist að greiða úr öllum fyrirvörum vegna kaupa félagsins á WOW air fyrir næsta föstudag en þá er hluthafafundur Icelandair Group fyrirhugaður. Auk samþykkis hluthafafundar eru kaupin jafnframt háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og niðurstöðu áreiðanleikakönnunar.

Frétt Fréttablaðsins: Ólíklegt að fyrirvarar verði uppfylltir fyrir hluthafafund