Skúli Gunnar Sigfússon, eða Skúli í Subway, var í dag sýknaður af ákæru fyrir að millifæra fjármuni af bankareikningum félags í aðdraganda þess að félagið var úrskurðað gjaldþrota. Þetta kemur fram á vef Vísis.
Félagið sem um ræðir nefnist EK1923 ehf. en hét áður Eggert Kristjánsson ehf. heildsala. Í ákærunni var vísað í tvær millifærslur sem talið var að væru til þess fallnar að rýra efnahag félagsins.
Fyrri millifærslan var 21,3 milljóna millifærsla inn á reikning Sjöstjörnunnar í mars 2016 og sú seinni greiðslur frá EK1923 þann 11. Ágúst 2016 til tveggja erlendra birgja, en kröfurnar voru gjaldfallnar.
Einnig voru tveir aðrir stjórnendur félagsins, þeir Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar og Guðmundur Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stjörnunnar, sýknaðir af sömu ákæru.
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður þrotabús EK1923 og hefur verið tíðrætt um umrætt mál í fjölmiðlum. Ekki hefur komið fram hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar.