Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW, rær nú lífróður svo flugfélag hans fari ekki í þrot. Í dag slitnaði upp úr viðræðum WOW við Icelandair Group um kaup hins síðarnefnda á WOW.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance nú að því að safna að lágmarki 30 milljónum dollara, sem samsvarar tæplega 3,6 milljörðum króna, til að setja inn í rekstur WOW. Ljóst er að það fé þyrfti að vera til reiðu án tafar.

Sjá einnig: „Fórum ekki í viðræðurnar út af Boeing-málinu“

Samkvæmt heimildum er Skúli reiðubúinn að láta frá sér umtalsverðan hlut í WOW air. Þá eigi skuldabréfaeigendur að breyta kröfum sínum í hlutafé auk þess sem þeir leggi félaginu til nýtt fjármagn. Loks á Isavia að afskrifa að minnsta kosti hluta skuldar WOW vegna lendingargjalda.

Viðmælendur Fréttablaðsins telja nánast ómögulegt að Skúla og Arctica takist ætlunarverkið. Lex lögmannsstofa hefur verið skuldabréfaeigendum til ráðgjafar síðustu daga.

Sjá einnig: Icelandair slítur viðræðum við WOW air

Stjórnvöld funda nú í kvöld vegna framtíðar flugfélagsins. Að óbreyttu er því lítið til fyrirstöðu að flugrekstrarleyfið verði tekið af WOW air á morgun. Gjaldþrot WOW air eða greiðslustöðvun verður vart flúin.

Heimildir blaðsins herma að fulltrúar flugfélagsins muni funda með Samgöngustofu nú í kvöld. Þar má gera ráð fyrir því að leyfi WOW air til flugrekstrar muni bera á góma.