Skúli Mogensen, forstjóri WOW, hefur ekki nákvæma tölu yfir það hve margir farþegar eru strandaglópar eftir að WOW hætti rekstri sínum en telur það vera þúsundir. Sagði hann stöðu mála vera úr sínum höndum og það sé mjög sárt. Kveðst hann sjálfur hafa sett aleiguna í reksturinn.

RÚV ræddi við Skúla Mogensen og kom fram í fréttinni að margir hafi verið grátandi við höfuðstöðvar WOW air í morgun og þungt hafi verið yfir starfsmönnum sem þar yfirgáfu vinnustaðinn, kannski í hinsta skiptið.

Skúli sagði viðræðurnar við mögulega fjárfesta hafa staðið allt fram undir morgun, en því miður hafi það ekki heppnast. Sagði hann telja að samningsaðilum hafi verið raunverulega alvara með þessum viðræðum og haldið hafi verið áfram til klukkan sjö í morgun, en tíminn hafi runnið út.

„Við vorum að vinna i alla nótt með fleiri en einum aðila en tíminn rann út,“ sagði Skúli. Fréttablaðið greindi frá því í nótt að flugfélagið hefði aflýst öllum flugferðum sínum til og frá landsins í dag, en í tilkynningu kom fram að viðræður við nýja eigendur væru á lokametrunum.

Tilkynning frá Samgöngustofu barst svo snemma í morgun þar sem fram kom að flugfélagið hefði hætt starfsemi. Sex flugvélar flugfélagsins sem áttu að koma úr Ameríkuflugi lögðu aldrei af stað vestanhafs. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að WOW air hafi ekki getað staðið í skilum um 300 milljón króna greiðslu sem átti að greiðast fyrir miðnætti til Air Lease Corporation. Það hafi haft úrslitaáhrif á rekstur flugfélagsins. Skúli hafnaði þessu í höfuðstöðvum WOW en gat ekki sagt nánar til um það hvaða kröfuhafar hafi beðið við dyrnar. „Þetta er náttúrulega mjög flókið mál,“ sagði hann og benti á að veturinn hafi verið erfiður í flugheiminum.

„Þetta er nú svolítið þannig að eitt leiðir af öðru að þegar að einn byrjar þá fellur þetta mjög hratt. Það var ekkert eitt um fram annað, menn voru einfaldlega orðnir óþreyjufullir,“ sagði hann aðspurður um það hvers vegna flugfélagið hafi stöðvað rekstur sinn í morgun. Kvaðast hann sjálfur telja að með meiri tíma hefði félagið geta haldið velli. „Auðvitað liggur það ljóst fyrir að þegar að flugvélarnar eru kyrrsettar er þetta búið.“

Sagði hann stöðu mála vera sorglega en hann væri óheyrilega þakklátur fyrir stuðning og hvatningu frá starfsfólki. Þá sagðist hann einfaldlega hafa verið njörvaður niður í það sæti að sætta sig við stöðu mála, en forstjórinn hefur ítrekað sagt síðustu daga að viðræður séu í góðum farvegi.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, fréttamaður RÚV, spurði Skúla ítrekað hvort það hafi verið óábyrgt af honum að halda áfram þegar ljóst var að staða flugfélagsins hafi verið slæm en kvaðst hann ekki telja svo vera.

„Ég trúi því ennþá að ef við hefðum fengið meiri tíma hefðum við getað lokið þessu.“ Þá sagði hann að endurskipulagning flugfélagsins hefði átt að hefjast fyrr, en hún hófst síðasta haust. Þá sagðist hann telja óábyrgara að skila inn rekstrarleyfinu ef reksturinn hefði ekki verið fullreyndur, of mikið hafi verið í húfi.

Hátt í eitt þúsund munu missa vinnunna hjá fyrirtækinu og sagðist Skúli af öllu vera svekktastur yfir því. Sagði hann magnað hvað hópurinn hafi haldið haus þrátt fyrir þetta áfall en þungt andrúmsloft hafi verið á fundi með starfsmönnum í morgun og erfitt að horfast í augu við þessa staðreynd. Aðspurður um hvort það sé tilefni til að byrja upp á nýtt þá segist hann alltaf vilja vinna aftur með þessum hópi starfsmanna en verkinu sé lokið.

Sagðist hann hafa axlað ábyrgð á stöðunni og geri það áfram. „Ég tel að við höfum átt frábært samstarf við Samgöngustofu, Isavia og ráðuneytin og unnið þetta eins vel og hægt var,“ sagði hann.

„Ég setti aleiguna í þennan rekstur,“ sagði Skúli aðspurður um hve mikið hann hafi sett í reksturinn en kvaðst ekki vita hvort eignir væru enn í félaginu.

„Ég er ekki viss um að ég sé búinn að átta mig almenilega á þessu, maður er bara búinn að vaka mest allan sólarhringinn síðustu vikur.“ Þó sagðist hann ekki verið búinn að gefast upp en þessu verki sé lokið. Vildi hann ekki segjast ekki gefast upp en þessu verki sé því miður lokið. „Ég er ekki búinn að gefast upp sem slíkur."