„Kæru vinir. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er farið að hljóma eins og sagan endalausa – og ég vona að þessi saga muni engan endi taka.“ Svona hefst stutt bréf sem Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, sendi starfsfólki í kvöld. Upp úr viðræðum WOW air og Icelandair Group slitnaði í dag.

Sjá einnig: Skúli gerir lokatilraun til að forða gjaldþroti

Í bréfinu segist hann lítið geta sagt nema það sem fram kom í yfirlýsingu frá WOW í kvöld. Nú sé verið að vinna að því að breyta skuldum í hlutafé, með það að markmiði að bjarga félaginu.

Skúli þakkar að lokum fyrir mikinn stuðning sem hann segist hafa fengið frá starfsfólki. Hann segir að margir hafi boðist til að leggja til hluta launa sinna upp í hlutabréf. Hann vonist til að hægt verði að verða við því. 

Eins og Fréttablaðið hefur fjallað um í kvöld rær Skúli nú lífróður að því markmiði að bjarga félaginu. Á bak við tjöldin er reynt að safna að lágmarki 3,6 milljörðum króna til að leggja í reksturinn.