Fundað var víða um höfuðborgina í gærkvöld vegna stöðu WOW air eftir að viðræðum félagsins við Icelandair var slitið um miðjan dag. Skúli Mogensen, eigandi félagsins, rær nú lífróður til að afstýra brotlendingu þess.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vinnur Arctica Finance að því að safna 42 milljónum dollara, andvirði rúmlega 5 milljarða króna, til að bjarga flugfélaginu frá þroti. Hafa verður hraðar hendur við það verk. Félagið skuldar fyrir um 200 milljónir dollara – skuldabréfaeigendum, Arion banka, ISAIVA ohf. og ýmsum öðrum viðskiptavinum – en sú upphæð samsvarar um 24 milljörðum íslenskra króna. Af þeirri upphæð eru um tveir milljarðar króna komnir til vegna skuldar félagsins við ISAVIA. Hefur félagið skuldbundið sig til að hafa ávallt eina vél flota síns á Keflavíkurflugvelli til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Sú hugmynd hefur verið viðruð, af forsvarsfólki WOW, að ISAVIA gefi eftir hluta skuldarinnar.

Þátttakendur í skuldabréfaútboði WOW air, sem léðu flugfélaginu um 7,9 milljarða króna síðasta haust, sem og aðrir kröfuhafar fyrirtækisins funduðu um helgina. Fram kom í tilkynningu frá WOW í gær að fulltrúar félagsins hefðu tekið þátt í þeim fundum en efni þeirra var að reyna að ná samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu þess.

Í tilkynningu WOW kom enn fremur fram að vonir standi til þess að hluta núverandi skulda yrði breytt í hlutafé og að fjármagn verði tryggt þar til félagið nái stöðugleika á ný. Hagræðingarhugmyndir forsvarsmanna fyrirtækisins lutu að því að fækka í flugflotanum, úr ellefu vélum í sjö. Heimildir Fréttablaðsins herma að tillögur Skúla hafi ekki fallið í frjóan jarðveg.

Þá sendi Skúli Mogensen starfsmönnum sínum stutt bréf í gærkvöldi. Þar þakkaði hann starfsfólki fyrir mikinn stuðning sem það hefur sýnt. Fjöldi starfsmanna hafi boðist til þess að leggja hluta launa sinna upp í hlutafé í félaginu. Vonir standi til þess að unnt verði að verða við því. Að öðru leyti gæti hann ekkert sagt á þessu stigi umfram það sem fram komi í tilkynningunni.

Staðan of slæm fyrir framhald

Tilkynnt var um viðræðuslit Ice­landair og WOW á sjötta tímanum í gær. Umræddar viðræður voru stuttar en þær hófust á föstudag eftir að upp úr flosnaði milli WOW og Indigo Partners. Um síðustu helgi viðruðu forsvarsmenn WOW hugmyndir við stjórnvöld um ríkis­ábyrgð á lánalínu til félagsins frá Arion banka.

„Í stuttu máli er fjárhagsstaðan og reksturinn með þeim hætti að við sáum ekki ástæðu til að halda áfram,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, um viðræðuslitin. „Við vorum að horfa á þetta til lengri tíma en ekki til þess að leysa skammtímamál. Síðan þegar við fórum að skoða málið og allar sviðsmyndir þá ákváðum við að ganga frá þessum viðræðum.“

Fulltrúar WOW air og kröfuhafar félagsins voru ekki einu aðilarnir sem funduðu í gær vegna stöðunnar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, og samgönguráðherrann Sigurður Ingi Jóhannsson komu einnig saman til að ræða stöðuna. Heimildir Fréttablaðsins herma að Matt Ridley, ráðgjafi sem starfaði áður hjá fjárfestingarbankanum JP Morgan og einn helsti ráðgjafi Íslands í kjölfar hruns bankanna, hafi setið fundinn. Ekki fengust svör um hvað fór fram á fundinum. Sigurður Ingi vildi ekki ræða við blaðið um stöðuna en sagði í skriflegu svari að óvissa væri um stöðuna í flugmálum.

Þá herma heimildir Fréttablaðsins að fulltrúar WOW hafi fundað með Samgöngustofu í gær en stjórnvaldið er útgefandi flugrekstrarleyfis félagsins. Eitt af skilyrðum þess leyfis er að flugrekandi hafi fjárhagslegt bolmagn til að halda rekstri áfram. Samgöngustofa hefur fylgst grannt með fjárhagsstöðu félagsins frá síðasta hausti en samkvæmt heimildum blaðsins var meðal annars endurskoðandi frá stofnuninni með starfsstöð á skrifstofu WOW um skeið.

Sagt var frá því í helgarblaði Fréttablaðsins að komi til þess að WOW air hverfi af flugmarkaði gæti það leitt til þess að landsframleiðsla dragist saman um allt að tæpum þremur prósentum. Var það niðurstaða skýrslu sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu Reykjavík Economics fyrir félagið. Í skýrslunni kemur einnig fram að brotthvarfið hefði í för með sér veikingu krónunnar og að þúsundir starfa myndu tapast.