Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum hlutabréfamarkaði undanfarin fjögur ár. Í Markaðnum í gær kom fram að fjöldi almennra fjárfesta hefur næstum fjórfaldast frá 2018, auk þess sem erlendir vísitölusjóðir eru nú komnir með íslensk hlutabréf í eignasöfn sín vegna flokkunar FTSE.

Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum, segir stóru breytinguna sem orðið hafi undanfarin ár vera fjölgun fyrirtækja sem eru skráð á markað. Það sé til hagsbóta fyrir fjárfesta. Frá árinu 2012 hafi að jafnaði verið tvær til þrjár nýskráningar á aðallista kauphallarinnar á ári, auk þess sem First North markaðurinn hafi tekið við sér undanfarið. Flokkunin hjá FTSE fjölgar leikendum á þessum markaði sem ætti að leiða til meiri veltu og betri verðmyndunar á markaði að hans mati.

„Stærsta breytingin á undanförnum tveimur til þremur árum er þó fjölgun þeirra einstaklinga sem eiga í hlutabréfum á markaði beint í kjölfar vel heppnaðra útboða undanfarin ár sem hefur aukið við flóru þeirra bréfa sem eru í boði í kauphöllinni,“ segir Vignir.

Hann bætir við að eftir vaxtalækkanir hafi almennir fjárfestar á síðasta ári fært sig í nokkrum mæli úr skuldabréfum yfir í dreifð eignasöfn eða jafnvel hlutabréfasjóði. „Þetta er eðlilegt í lágvaxtaumhverfi þar sem bankareikningar og skuldabréf skila lágum vöxtum. Í raun stuðlar lægra vaxtastig að aukinni áhættutöku og við sjáum þetta á öllum mörkuðum í heiminum.“

Eftir frábært ár í fyrra hafa hlutabréf lækkað í verði á þessu ári og Vignir segir nú koma í ljós hvert raunverulegt áhættuþol fjárfesta er. Hlutabréf séu í eðli sínu áhættufjárfesting sem sveiflast í verði og ekki allra að höndla þær sveiflur.

Vignir segir yfirstandandi ár hafa verið mjög krefjandi á fjármálamörkuðum þar sem lítið sem ekkert skjól hafi verið í neinum eignaflokkum.

„Vextir eru að hækka í nánast öllum heiminum og ávöxtunarkrafa skuldabréfa hefur hækkað mikið í Evrópu og Bandaríkjunum. Við þetta bætist að verðbólgan hefur hækkað mikið og 12 mánaða taktur er víða á bilinu 8-12 prósent,“ segir Vignir sem segir það þó jákvætt að verð á mörgum hrávörum hafi náð ákveðnu jafnvægi.

Hann segir að þótt seðlabankar heimsins hækki nú vexti til að ná niður verðbólgu bjóði skuldsetning hagkerfa heimsins ekki upp á að vextir séu mjög háir í langan tíma.

Vignir Þór segir stöðuna hér á landi almennt vera betri en víðast annars staðar en vandamálin séu þó þau sömu. „Vegna lágra vaxta hækkaði fasteignaverð verulega hér eins og annars staðar. Við glímum hins vegar ekki við verðbólgu á sama tíma og samdrátt hagkerfa eins og Bretland, Evrópa og Bandaríkin. Við munum þó finna fyrir innfluttri verðbólgu áfram.“

Vignir Þór Sverrisson, fjárfestingastjóri hjá Íslandssjóðum, segir íslenskan hlutabréfamarkað njót góðs af fjölgun skráðra fyrirtækja og fjárfesta.

Vignir bendir á að í hagtölum Seðlabankans komi fram að innlán heimila aukist enn verulega á sama tíma og yfirdráttarlán aukast. „Af þessu má draga þá ályktun að hluti heimila gæti átt í vandræðum með að ná endum saman. Þetta kemur betur í ljós í vetur.“ Hann bætir því við að einn óvissuþáttur inn í veturinn snúi að kjarasamningum og hvaða lending náist þar.

Í ljósi ofangreinds segir Vignir Þór það ekki undarlegt þótt krefjandi tímar séu á verðbréfamörkuðum og ætti því ekki að koma á óvart að markaðurinn hér heima lækki í takt við aðra markaði. „Við höfum séð aukna fylgni við erlenda markaði og búast má við að svo verði áfram,“ segir Vignir Þór Sverrisson hjá Íslandssjóðum.