Heildarskuld­bind­ing­ar A-hluta Reykja­víkurborgar námu ríflega 118 milljörðum króna um mitt ár 2020, að því er fram kemur í sex mán­aða uppgjöri borgarinnar sem var nýlega birt. Það þýðir að skuldir fyrir hvern borgarbúa eru nú meira en 900 þúsund krónur, en á síðastliðnum tíu árum hafa skuldir á hvern borgarbúa meira en tvöfaldast, sé miðað við verðlag hvers árs. Sé notast við fast verðlag hafa skuldir á hvern borgarbúa hækkað um meira en 70 prósent. Þessar tölur taka þó ekki inn í reikninginn skuldbindingar borgarinnar utan efnahagsreiknings, sem nema nú um 122 milljörðum króna. Skuldir utan efnahagsreiknings eru meðal annars vegna verksamninga, rekstrar- og eignaleigusamninga, ábyrgðarskuldbindinga gagnvart þriðja aðila vegna skuldabréfalána og vegna skuldbindinga gagnvart fyrirtækjum sem tilheyra B-hluta borgarinnar.

Ljóst er að rekstur borgarinnar mun verða fyrir nokkrum skakkaföllum vegna áhrifa COVID-19 farsóttarinnar. Í árshlutareikningi fyrir fyrri hluta yfirstandandi árs segir meðal annars: „Búast má við því að tekjur lækki áfram og velferðar­útgjöld hækki, m.a. vegna aukins atvinnuleysis. Erfitt er að meta endanleg áhrif á rekstur og efnahag borgarinnar á meðan óvissa ríkir um hversu lengi ástandið varir. Sjóðsstaða Reykjavíkurborgar er sterk og hefur Reykjavíkurborg fjárhagslegan styrk til þess að taka á sig veruleg áföll vegna afleiðinga faraldursins.“

Handbært fé Reykjavíkurborgar var um 8,3 milljarðar um mitt ár. Athygli vekur að ekki hafi tekist að byggja upp sterkari sjóðsstöðu eftir nýliðin uppgangsár, en meðalhagvöxtur áranna 2015 til 2019 var um 4,3 prósent. Á föstu verðlagi jókst handbært fé borgarinnar um 1,3 milljarða frá árslokum 2015 og fram á mitt ár 2020. Á þessu tímabili jukust tekjur borgarinnar þó um ríflega 23 prósent. Á sama tíma var skuldaaukningin nærri því 28 prósent. Skuldaaukning borgarinnar hefur þannig verið töluvert hraðari en tekjuaukning síðustu ára, en mikill hagvöxtur áranna 2015 til 2019 skilaði sér í ríflegri tekjuaukningu hjá Reykjavíkurborg líkt og öðrum sveitarfélögum. En það er trauðla hægt að halda því fram að borgin hafi lagt sérstaklega mikið til hliðar fyrir mögru árin.

Hröð skuldaaukning birtist síðan skýrt í þróun eiginfjárhlutfalls borgarinnar. Við árslok 2010 var eiginfjárhlutfall borgarinnar í sterkari kantinum og stóð í 63 prósentum. Ríflega tíu árum síðar hafði um þriðjungur af eigin fé borgarinnar þurrkast út og stóð eiginfjárhlutfall í 44 prósentum.

Mikil aukning skulda og samfara því sífellt þyngri greiðslubyrði, birtist einnig skýrt í þróun veltufjárhlutfalls Reykjavíkur. Veltufjárhlutfall lýsir getu rekstrar til að standa skil á skammtímaskuldum. Samkvæmt viðmiðum Sambands íslenskra sveitarfélaga þarf það hlutfall helst að vera yfir einum. Sé hlutfallið undir einum getur rekstur ekki staðið undir skuldbindingum næstu 12 mánaða án þess að ráðist verði í niðurskurð útgjalda eða frekari lántöku. Veltufjárhlutfall Reykjavíkur lækkaði úr 2,42 á árinu 2010 og niður í 1,18 árið 2015. Það hefur svo lækkað aftur og stóð í 1,17 við lok árs 2019. Hér ber þó að nefna að veltufjárhlutfall íslenskra sveitarfélaga er almennt rétt yfir einum.

Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum er hins vegar öllu meira áhyggjuefni, en það hlutfall féll niður í 3,1 prósent um mitt ár 2020 og hefur aldrei verið svo lágt á tímabilinu 2010 til 2020. Til samanburðar hefur fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar áður sagt að hlutfall veltufjár frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum, þurfi helst að vera yfir 10 prósentum til að standa undir fjármögnun A-hluta borgarinnar. Þar sem álagningarprósenta Reykjavíkurborgar er í lögbundnu hámarki um þessar mundir er ljóst að borgarinnar bíður það verkefni að bæta enn á skuldir borgarsjóðs eða ráðast í niðurskurð á þjónustu, svo að endar nái saman.