Eigendur breytanlegra skuldabréfa Alvotech hafa ákveðið að nýta rétt sinn til að breyta skuldabréfum að fjárhæð 106 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 13 milljarða króna, í hlutafé á gengi sem verðmetur Alvotech á um 300 milljarða íslenskra króna.

„Þetta er gríðarlega stór áfangi fyrir Alvotech og staðfesting á því öfluga starfi sem starfsfólk Alvotech hefur unnið að undanförnu,“ segir Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech, í samtali við Markaðinn.

Alvotech gaf út breytanleg skuldabréf fyrir 300 milljónir dala, jafnvirði 36 milljarða króna á þáverandi gengi, í lok árs 2018. Eigendur skuldabréfanna höfðu rétt til að breyta skuldabréfum í hlutafé og í dag hefur um fjórðungur þeirra ákveðið að nýta sér rétt sinn. Framkvæmd útboðsins var í höndum alþjóðlega fjárfestingarbankans Morgan Stanley í samvinnu við Arion banka.

Róbert segir að samhliða þessu hafi verið samið um hagstæðari kjör á eftirstöðvum skuldabréfsins, þar sem vextir lækka, gjalddagi er lengdur til loka ársins 2025 og frekari breytiréttur felldur niður.

Þá er Alvotech að stækka skuldabréfaflokkinn um ríflega 6 milljarða króna, en erlendir fagfjárfestar hafa skrifað sig fyrir þeirri fjárhæð. Skuldir Alvotech lækka því við þetta um sem nemur um 7 milljörðum króna með skuldbreytingu upp á 13 milljarða króna að frádreginni 6 milljarða stækkun á skuldabréfaflokknum.

Alvotech vinnur að þróun sjö líftæknilyfja, þar á meðal hliðstæðu lyfsins Humira, sem er söluhæsta lyf heims. Líftæknilyf, sem eru framleidd með hjálp lífvera, eru flóknari í þróun og framleiðslu en hefðbundin lyf og kosta því umtalsvert meira. Á næstu árum renna mörg einkaleyfi líftæknilyfja út, sem skapar tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Alvotech til að setja sambærileg lyf á markað.

Róbert sagði í viðtali við Markaðinn fyrr í vikunni að áfangagreiðslur, sem kveðið er á um í þeim fjölda samninga sem Alvotech hefur gert um sölu og dreifingu, geti skilað íslenska líftæknifyrirtækinu allt að 130 milljarða króna tekjum á næstu árum.

Þá stefnir Alvotech að skráningu á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum á þessu ári.