Kortlagning útlánaáhættu og betri upplýsingar um beitingu þjóðhagsvarúðartækja eru á meðal þeirra kosta sem felast í miðlægri skrá yfir skuldbindingar allra einstaklinga og lögaðila, svokölluðum skuldagrunni.

Í hvítbókinni um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem gefin var út í desember var fjallað um hugmyndir að miðlægum skuldagrunni sem nýttist stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum við að fá auknar upplýsingar vegna skuldsetningar í efnahagslífinu. Creditinfo rekur skuldastöðukerfi sem nýtt er til miðlunar skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja.

„Þessi hugmynd kom fram á sjónarsviðið árið 2009 þegar stjórnvöld og eftirlitsstofnanir voru að velta fyrir sér hvort það væru ekki tiltækar upplýsingar sem hefðu getað varpað ljósi á stöðu fjármálakerfisins og skuldir heimilanna,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, í samtali við Markaðinn og vísar til skýrslu Finnans Kaarlo Jännäri um regluverk og eftirlit með íslenskum bönkum frá árinu 2009 en þar var lagt til að komið yrði á fót miðlægum skuldagrunni.

„Það er hægt að lesa ýmislegt út úr ársreikningum banka, eins og heildarskuldsetningu í landinu, en skuldagrunnur veitir yfirsýn yfir samsetningu og dreifingu skuldanna. Hann segir okkur til dæmis hvort fáir skuldi mikið eða margir lítið.“

Gunnar segir að kostir miðlægs skuldagrunns séu margvíslegir og nefnir fjögur dæmi.

„Í fyrsta lagi gæti hann bætt mat fjármálafyrirtækja á útlánaáhættu og aukið skilvirkni í lánveitingum, í öðru lagi bætt yfirsýn lántakenda yfir eigin skuldir, í þriðja lagi bætt mat eftirlitsstofnana á samþjöppun á áhættu og í fjórða lagi nýst stjórnvöldum til greininga og ákvörðunartöku.“

Fyrstu tvo kostina má nú þegar finna í skuldastöðukerfinu sem Creditinfo heldur úti en það inniheldur upplýsingar um skuldir og ábyrgðir einstaklinga og fyrirtækja. Kerfið gerir þannig fjármálafyrirtækjum auðveldara að meta skuldastöðu viðskiptavina sinna vegna nýrra lánveitinga og gefur einstaklingum möguleika á að fá yfirsýn yfir sínar eigin skuldir. Gunnar segir að helsti ábatinn af því að koma á fót miðlægum skuldagrunni varði því eftirlitsstofnanir og stjórnvöld.

Hvaða skref þarf að taka til þess að búa til einn miðlægan skuldagrunn á Íslandi?

„Þetta eru umfangsmikil og viðkvæm gögn og því þarf líklega sérstaka lagasetningu til en eins og fjallað er um í hvítbókinni eru ýmis fyrirtæki og stofnanir að safna gögnum um skuldir í dag,“ segir Gunnar og nefnir sem dæmi skuldastöðukerfi Creditinfo og skuldbindingaskrá Fjármálaeftirlitsins sem heldur utan um heildarskuldbindingar einstaklinga og fyrirtækja við fjármálafyrirtæki að kröfuvirði yfir 300 milljónir króna. Þá hafi FME einnig hafið undirbúning að öflun gagna um fasteignalán til neytenda.

Hagstofa Íslands fékk árið 2013 lagaheimild til að afla reglubundinna upplýsinga um eignir, skuldir, tekjur og gjöld heimila og fyrirtækja í landinu en heimildin féll úr gildi í lok árs 2018. Aðrar stofnanir höfðu hins vegar takmarkaðan aðgang að gögnunum og þar af leiðandi var ekki hægt að nota þau til eftirlits og greiningar á kerfisáhættu og fjármálastöðugleika.

Spurður hvort finna megi fordæmi fyrir slíkum skuldagrunni erlendis svarar Gunnar játandi.

„Það eru fordæmi fyrir þessu og það er misjafnt hvernig þetta er útfært. Í sumum tilfellum safnar seðlabanki hvers lands upplýsingunum en í öðrum tilfellum einkafyrirtæki. Creditinfo hefur til dæmis komið að svona verkefnum í nokkrum löndum,“ segir Gunnar.