Viðbrögð á mörkuðum við úrslitum alþingiskosninga, en ríkisstjórnin hélt velli, voru nokkuð mótsagnakennd þegar kemur að hlutabréfum annars vegar og skuldabréfum hins vegar. „Annars vegar hækkuðu hlutabréf mjög skarpt og er augljóst að bjartsýni á raunhagkerfið hefur aukist umtalsvert eftir niðurstöðu kosninganna. Hins vegar héldust verðbólguvæntingar miðað við verðbólguálag á skuldabréfamarkaði óbreyttar,“ segir Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá Kviku eignastýringu.
Hann segir að helsti drifkraftur hækkandi verðbólguálags undanfarið hafi verið í gegnum lækkandi raunvexti á verðtryggðum ríkisbréfum. Þeir séu nú neikvæðir um 0,3 prósent til ársins 2026, sem sé í dag stysta verðtryggða skuldabréfið útgefið af ríkissjóði.

„Undir venjulegum kringumstæðum mætti ætla að bjartsýni á aukinn hagvöxt myndi auka líkur á að raunvextir yrðu jákvæðir fyrr en síðar og má nefna að meðlimur peningastefnunefndar, Gylfi Zoega, taldi það æskilegt í grein sem birt var á dögunum.
Þar kann þó að spila inn í að hin mikla fjármögnunarþörf ríkissjóðs vegna heimsfaraldursins hefur að miklu leyti beinst í útgáfu styttri óverðtryggðra skuldabréfa á sama tíma og útgáfa styttri verðtryggðra skuldabréfa hefur verið sáralítil síðastliðið ár. Á sama tíma greiðast stutt ríkistryggð skuldabréf hratt upp og hefur því myndast mikill skortur á þeim, einkum undanfarið,“ segir Agnar Tómas.
Hann segir að sú stefna ríkissjóðs að nýta sér ekki neikvæða raunvexti til fjármögnunar og svelta um leið markað sem þyrstir í að verja sig gegn hækkandi verðbólgu, eða einfaldlega viðhalda óbreyttu hlutfalli ríkistryggðra, verðtryggðra eigna, sé misráðin og hafi neikvæðar afleiðingar á fjármögnunarkostnað ríkissjóðs þar sem hærra og sveiflukenndara verðbólguálag ætti að öðru óbreyttu að ýta undir hærri vexti Seðlabankans en ella.
Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir aðspurður að sú staðreynd að kjarasamningum hafi ekki verið sagt upp bendi til að niðurstöður Alþingiskosninga horfi ágætlega við atvinnulífinu. „Vissulega anda margir léttar eftir að líkurnar á hreinni vinstri stjórn eru engar, en við skulum bíða og sjá þar til það liggur fyrir hvernig næsta ríkisstjórn lítur út.“
Hann telur að það sé ekki tilviljun að þeir flokkar sem töluðu fyrir óraunhæfum skattkerfisbreytingum og miklum útgjaldaloforðum hafi síður átt upp á pallborðið. Konráð segir að næstu ríkisstjórnar, hvernig sem hún verði samsett, bíði ærin verkefni, eins og til dæmis í heilbrigðis- og umhverfismálum, sérstaklega til lengri tíma. Til skemmri tíma séu úrlausnarefnin líka stór í sniðum. Nauðsynlegt sé að gera allt sem við getum til að skapa nýjar útflutningsgreinar sem byggja á hugviti fremur en auðlindum. „Þar eru ótakmörkuð tækifæri og forsenda fyrir því að við höldum í og löðum að mannauð, ásamt því að standa undir öflugu velferðarkerfi.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að víða séu tækifæri til að draga úr opinberu regluverki. „Þjóðin er ört að eldast sem þýðir að aukin framleiðni verður lykillinn að bættum lífskjörum. Til þess að ná henni fram þarf að virkja krafta einkaframtaksins betur á hinum ýmsu sviðum opinberrar þjónustu,“ segir hann.
Stjórnvöld sýni kjark til að laga umgjörð kjarasamninga
Konráð segir að stjórnvöld verði að hafa kjark til að skoða umhverfi kjarasamninga og færa það nær því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. „Við sjáum fram á ósjálfbærar launahækkanir, umfram svigrúm sem rúmast innan verðbólgumarkmiðs,“ segir hann. Það sé ótækt, en það styttist í kjarasamninga.

Halldór Benjamín segir að það varði þjóðarhagsmuni að betri umgjörð náist um gerð kjarasamninga hér á landi svo fyrirtæki og almenningur geti áfram búið við verðstöðugleika og hóflegt vaxtastig. „Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda að betri lífskjör hvíli á styrkum efnahagslegum stoðum og samkeppnishæfu atvinnulífi. Í átt að því markmiði þarf að setja vinnubrögðum við kjarasamningagerð fastari skorður, svo draga megi úr þeim mikla og óþarfa samfélagskostnaði sem samningagerðinni fylgir,“ segir hann.