Nýr meirihluti var myndaður í Reykjavík fyrr í vikunni. Raunar er hann ekki svo nýr heldur frekar framhald af fráfarandi meirihluta þar sem Bjartri framtíð hefur verið skipt út fyrir Viðreisn. 

Ljóst er að meirihlutinn á stórt verk fyrir höndum við að ná stjórn á fjármálum borgarinnar. Þar var gott að sjá í málefnasamningi áherslu á að fækka nefndum og ráðum á vegum borgarinnar. Ekki veitir af enda starfa 12% vinnandi Reykvíkinga hjá borginni. 

Auðvitað gengur slíkt ekki upp, sérstaklega þegar litið er til þess að sambærilegt hlutfall í smærri nágrannasveitarfélögum er 10 til 11%. Reykjavík nýtur því nákvæmlega engrar stærðarhagkvæmni þegar kemur að yfirbyggingu eins og ætti að vera raunin, heldur þvert á móti. 

Annað úr málefnasamningnum er lýtur að fjármálum og rekstri er heldur þunnur þrettándi. Halda á útsvari í lögbundnu hámarki á kjörtímabilinu. Slíkt hlýtur að vera vonbrigði eftir fordæmalausa tekjuaukningu borgarsjóðs síðustu ár. Ekkert er heldur minnst á löngu tímabæra lækkun þjónustugjalda Orkuveitunnar. Allt lítur því út fyrir að vinda eigi tekjutuskuna áfram til fulls á öllum vígstöðvum. 

Einnig er tekið fram að greiða eigi niður skuldir „meðan efnahagsástandið er gott“. Nú verður að segjast að sporin hræða hvað þennan meirihluta varðar. Að minnsta kosti tókst þeim að safna skuldum á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir að tekjur borgarsjóðs hafi vaxið um þriðjung á kjörtímabilinu. 

Loks segir að tryggja eigi svigrúm til fjármögnunar borgarlínu og félagslegs húsnæðis. Ekki er gott að segja hvernig á að fara að því, en tap er af venjubundnum rekstri borgarsjóðs og því ljóst að sjálfsaflafé mun að óbreyttu ekki nægja til að fjármagna þessi verkefni. Því hlýtur þetta að vera fyrirboði um frekari skuldsetningu. 

Nýi meirihlutinn boðar því bæði niðurgreiðslu skulda og aukna skuldsetningu í einu og sama plagginu. Það gefur varla fyrirheit um skýra sýn á fjármálin.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.