Vanskil WOW air við Isavia námu alls einum milljarði króna. Greiða átti skuldina upp í þrettán aðskildum greiðslum frá nóvember 2018 til nóvember 2019. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir að WOW hafi staðið í skilum við Isavia þar til í febrúar á þessu ári. Marsgjalddagi sem hljóðaði upp á 30 milljónir króna hafi síðan aldrei verið greiddur.

Samkvæmt ákvæðum samningsins átti WOW á meðan þau greiddu upp skuld sína að hafa ávallt eina vél á vellinum eða eina vél sem væri á leið til landsins og með staðfestan komutíma. Á þeim grundvelli hafi vélin TF-GPA á Kefla­vík­ur­flug­velli verið óhreyfð frá 18. Mars og alveg þar til að félagið var lýst gjaldþrota við lok mars. Vélin var í eigu Air Lea­se Corporati­on (ALC) sem er einn stærsti kröfuhafi í þrotabú WOW og var stærstu leigusali félagsins. Sjö vélar voru alls kyrrsettar vegna skuldar WOW við ALC.

Fram kemur í frétt Morgunblaðsins að sama dag og WOW fór í þrot hafi Isavia sent ALC bréf þar sem þeir voru krafðir um greiðslu skuldar WOW við Isavia. Þar segir einnig að WOW hafi á engum tímapunkti upplýst ALC um samkomulag sitt við Isavia.