Eru skattyfirvöld að skrúfa fyrirvaralaust fyrir endurgreiðslur virðis­aukaskatts til byggjenda íbúðar- og frístundahúsnæðis?

Í gegnum tíðina hafa íslensk stjórnvöld sett fram aðgerðir sem ætlað er að stemma stigu við yfirstandandi erfiðleikum sem hafa slæm áhrif á efnahagslífið í landinu. Í efnahagshruninu 2008 var ráðist í slíkar aðgerðir þegar endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði var tímabundið hækkað úr 60% í 100%. Þá var einnig endurgreiddur virðisaukaskattur vegna hönnunar og eftirlits, sem alla jafna fæst ekki endurgreiddur, auk þess sem heimildin gat einnig varðað frístundahúsnæði.

Í kjölfar kórónuveirufaraldursins voru sambærilegar aðgerðir settar á laggirnar sem gilda að öllu óbreyttu út árið 2021. Endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu manna var hækkað í 100% og var endurgreiðsluheimildin rýmkuð með sama hætti og gert var í kjölfar efnahagskreppunnar. Markmið aðgerðanna var að draga úr tjóni, tryggja stuttan varanleika neikvæðra áhrifa á atvinnulíf og efnahag, tryggja viðspyrnu, örva einkaneyslu, auka eftirspurn og skila sér í lægra verði byggingaraðila, þó með jákvæðum fjárhagslegum áhrifum á fyrirtæki í byggingarstarfsemi.

Frá rýmkun ákvæðisins í byrjun árs 2020 og fram undir miðbik yfirstandandi árs hafa skattyfirvöld þó endurgreitt byggjendum framangreinds húsnæðis virðisaukaskatt athugasemdalaust en fyrirvaralaust virðast þau hafa skrúfað fyrir endurgreiðslurnar um mitt ár. Í dag er afstaða skattyfirvalda sú að endurgreiðsla verður ekki veitt fyrr en húsnæði er orðið skráð sem íbúðar- eða frístundahúsnæði í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í rúm 30 ár, frá setningu laga um virðisaukaskatt, hafa slík skilyrði ekki verið fyrir hendi og hefur almennt dugað til að umsækjandi endurgreiðslu sé eigandi íbúðarhúsalóðar. Er endurgreiðsluheimildin því þrengd frekar en rýmkuð þar sem húsbyggjendur geta ekki sótt endurgreiðslu að mati skattyfirvalda fyrr en húsnæði er orðið skráð í fasteignaskrá. Það segir sig því sjálft að ýmis kostnaður vegna framkvæmda á byggingarlóð undir íbúðar- eða frístundahúsnæði fæst þannig ekki endurgreiddur þrátt fyrir að hönnunar- og framkvæmdaferli sé hafið að virtu samþykki sveitarfélags og útgefnu byggingarleyfi.

Túlkun skattyfirvalda gengur því augljóslega í berhögg við tilgang laganna og þau sjónarmið sem lágu að baki aukinni endurgreiðslu virðisaukaskatts til byggjenda íbúðarhúsnæðis og kemur í veg fyrir endurgreiðsluflæði sem er stór liður í fjármögnun framkvæmda húsbyggjenda. Vart má telja að verið sé að fylgja vilja löggjafans með þessum skerðingum sem gera byggjendur í raun tímabundið verr setta nú en áður en til breytinganna kom.

Einstaklingur sem byggir sér frístundabústað eða verktakafyrirtæki sem byggir nokkrar íbúðablokkir getur því orðið fyrir miklum fjárútlátum áður en hægt er að uppfæra skráningu lóðarinnar í fasteignaskrá yfir í íbúðar- eða frístundahúsnæði. Virðisaukaskattur af því fæst þó ekki endurgreiddur sem fyrr segir, fyrr en skráningu hefur verið breytt í fasteignaskrá, sem eftir atvikum getur gerst eftir að framkvæmdum er lokið.

Sennilega er hægt að fullyrða að eins og er séu þetta ekki þau jákvæðu fjárhagslegu áhrif sem breytingunni var ætlað að hafa í för með sér fyrir byggingaraðila.

Edda Bára Árnadóttir er lögfræðingur hjá KPMG Law.