Mikill vöxtur er í innlendri netverslun með dagvöru en Ísland er þó enn langt á eftir nágrannaþjóðum sínum í þessum efnum.

Í hagtölum Rannsóknarseturs verslunarinnar fyrir ágústmánuð mátti greina 13 prósenta aukningu milli mánaða í innlendri netverslun og um 32 prósent milli ára. Ef netverslun með dagvöru er tekin sérstaklega fyrir var aukningin á milli ára tæplega 50 prósent.

Hjalti Baldursson, stjórnarformaður Wedo sem er móðurfélag Heimkaupa, segir að veltan aukist með stöðugum hætti en fjöldi seldra hluta aukist mun hraðar. Fjöldi seldra dagvara í júlí þrefaldaðist milli ára hjá Heimkaupum.

„Það þýðir að fólk er farið að gera stærri innkaup á netinu en í fyrra. Það er skýr breyting á neyslumynstrinu en við erum þó enn langt á eftir nágrannaþjóðum ef litið er til umfangs netverslunar sem hlutfalls af heildarmatvörumarkaðinum,“ segir Hjalti. Samkvæmt tölum rannsóknarsetursins var hlutdeild netverslunar um 4,2 prósent af allri dagvöruverslun í ágúst. Meðaltalið í ár er 3,9 prósent.

„Við erum, sem dæmi, enn ekki komin á þann stað sem Svíþjóð var á fyrir Covid, og hvað þá Bretland eða Bandaríkin. Það er nokkuð stöðugur vöxtur og heldur meiri hjá yngra fólki en þeim sem eldri eru.“