Baldur Thorlacius, framkvæmdastjóri hjá Kauphöllinni, segir að honum þyki skráningar flugfélagsins Play og tölvuleikjaframleiðandans Solid Clouds á First North-hliðarmarkaðinn afar spennandi. Þetta sagði hann í viðtali sjónvarpsþáttinn Markaðinn sem frumsýndur er á miðvikudagskvöldum og endursýndur reglulega.

Hann sagði að tilgangur verðbréfamarkað sé meðal annars að styðja við vöxt fyrirtækja. Um sé að ræða ung fyrirtæki sem komi tiltölulega snemma á hlutabréfamarkað til að afla fjáramagns til vaxtar og bjóði breiðum hópi fjárfesta að taka þátt í þeirri vegferð með sér. Almenningur myndi annars ekki eiga kost á að taka þátt í uppbyggingu félagnna fyrr en þau væru orðin stærri og búin að taka út mikinn vöxt.

Aðspurður hvers vegna það séu að koma tvær skráningar á First North hliðarmarkaðinn með stuttu millibili en ung fyrirtæki hafi ekki áður nýtt markaðinn til að afla sér fjármagns sagði hann að fyrir COVID-19 hafi fyrirtæki sýnt því áhuga að fara á markaðinn en heimsfaraldurinn hafi sett strik í reikninginn. Vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair hafi hins vegar glætt áhuga forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja. Fyrir hlutafjárútboð flugfélagsins hafi margir ekki haft trú á því að almenningur myndi vilja taka þátt í áhættufjárfestingum. Að sama skapi sé mikið fé til í landinu og mikið af því liggi á innlánsreikningum sem beri lága vexti eða jafnvel neikvæða raunvexti eftir stýrivaxtalækkanir. Það verði þess valdandi að fólk fari að leita að fjárfestingarkostum.