Á fundinum munu hluthafar OACB taka afstöðu til sameiningar OACB og Alvotech.

Í tilkynningu til bandaríska fjármálaeftirlitsins (SEC) kemur fram að í síðasta mánuði tók Alvotech 40 milljón Bandaríkjadala lán hjá Alvogen og voru 20 milljónir þeirrar fjárhæðar greiddir út 12. apríl síðastliðinn.

Áður hafði komið fram að Alvotech hafði tryggt sér fjármögnun á bilinu 75-125 milljónir dala frá Sculptor Capital Investment LLC. Fyrir það greiðir Alvotech 2 prósent lántökugjald, vextir verða á bilinu 10-12,5 prósent og gjalddagi er 23. september 2025.

Einnig hefur áður komið fram að YA II PN, LTD. (Yorkville) hefur skuldbundið sig til að kaupa hluti fyrir allt að 150 milljónum dala í Alvotech.

Markmiðið með fjármögnun frá Sculptor og Yorkville er að tryggja greiðsluhæfi Alvotech í ljósi hás innlausnarhlutfalls í yfirtökufélaga að undanförnu.

Í tilkynningunni kemur fram að hluthafar OACB munu eiga um 13 prósent hlutafjár í sameinuðu félagi og hluthafar Alvotech um 79 prósent. Fjárfestar sem tóku þátt í PIPE fjármögnun í tengslum við samrunann munu eiga um það bil 8 prósent. Þessi hlutföll byggja á því að hluthafar OACB nýti sér ekki innlausnarrétt sinn heldur taki við hlutabréfum í sameinuðu félagi.

Gert er ráð fyrir að Róbert Werssman verði áfram stjórnarformaður Alvotech eftir samrunann og að stjórnendur fyrirtækisins verði sömu og áður.

Ef hluthafar OACB samþykkja ekki sameininguna við Alvotech og ekki tekst að ná fram samrunanum fyrir 21. september 2022 eða framlengdur fresturinn sem OACB hefur til að samþykkja sameininguna verður OACB leyst upp og hlutir þess innleystir á nafnverði.

Þrátt fyrir að illa hafi farið fyrir mörgum samrunum rekstrarfélaga við sérstök yfirtökufélög á undanförnum mánuðum er talið að sú viðbótarfjármögnun, sem Alvotech hefur tryggt sér annars vegar frá Sculptor og Yorkville og hins vegar með láninu frá Alvogen, sem er stór eigandi Alvotechs, auki mjög líkur á að samruninn verði samþykktur á hluthafafundinum í New York 7. júní.