Áhugi Íslendinga á skötuveislum er nú kominn aftur í sama horf og hann var fyrir heimsfaraldur, að sögn eigenda fiskbúða og veitingastaða.
Sigfús Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta og eigandi Fiskbúðar Fúsa, segir það enn of snemmt að meta hvernig skötuárið í ár verði í samanburði við fyrri ár. Engu að síður segist hann finna fyrir auknum áhuga á meðal almennings.
„Stærstu dagarnir hafa alltaf verið 21. og 22. desember, en það virðist vera meira um það að einstaklingar séu að kaupa skötu en áður fyrr. Árin 2020 og 2021 voru náttúrlega Covid-jól, þannig að það var minna um boð í heimahúsum,“ segir Sigfús.
Múlakaffi segist búast við rúmlega 900 manns á Þorláksmessu og er það á pari við þann fjölda sem sást fyrir heimsfaraldur. Margir hafi einnig hringt og spurt hvort það séu fleiri dagar í boði til að gæða sér á skötu.
Sigfús bætir við að þó svo að skatan sé í aðalhlutverki á Þorláksmessu sé mikið selt af síld, humar og öðrum fisktegundum. „Það er oft þannig að þegar búið er að borða kjöt á aðfangadag og hangikjöt á jóladag og annar í jólum er svo tileinkaður afgöngum, þá er kominn tími á að fá eitthvað léttara í magann. Þá er rosalega gott að grípa í fiskinn.“