Guðni Níels Aðalsteinsson, sem hefur undanfarin ár starfað hjá breska fjármálafyrirtækinu Legal & General, hefur verið ráðinn til íslenska fjártæknifyrirtækisins Alva þar sem hann mun gegna starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs. Áður gegndi Guðni stjórnunarstörfum hjá meðal annars Allied Irish Banks, Lehman Brothers og Kaupþingi, en hann stýrði fjárstýringu síðastnefnda bankans. Þá hefur Katrín M. Guðjónsdóttir jafnframt verið ráðin framkvæmdastjóri markaðssviðs Alva en áður stýrði hún markaðsmálum olíufélaganna N1 og Skeljungs og heildsölurisans Innness.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, útilokaði ekki í samtali við Fréttablaðið fyrir helgi að ferðaþjónustufyrirtækið yrði skráð á markað erlendis. Það ætti ekki að koma á óvart í ljósi ævintýralegs vaxtar fyrirtækisins á umliðnum árum. 

Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að selja 30 prósenta hlut í Bláa lóninu til Blackstone, eins þekktasta fjárfestingarsjóðs heims, síðasta sumar er ljóst að áhugi erlendra fjárfesta á fyrirtækinu hefur síst minnkað. Ákvörðun lífeyrissjóðanna um að hafna tilboði sjóðsins sætti gagnrýni en tíminn einn mun leiða í ljós hvort hún hafi reynst rétt.

Lögfræðingarnir Anna Sigríður Arnardóttir og Berglind Ósk Guðmundsdóttir hafa tekið sæti í stjórn Almenna leigufélagsins. Fyrir í stjórn íbúðaleigufélagsins, sem er í eigu fagfjárfestasjóða í rekstri GAMMA, eru þeir Ingvi Hrafn Óskarsson, sem er jafnframt stjórnarformaður, Sölvi Blöndal og Kjartan Georg Gunnarsson. 

Anna Sigríður hefur undanfarin ár starfað sem lögfræðingur hjá Kaupþingi en Berglind Ósk hefur meðal annars sinnt ráðgjafarstörfum hjá KPMG og Azazo. Stefnt er að skráningu Almenna leigufélagsins á hlutabréfamarkað á næsta ári.