Landsvirkjun og Samtök iðnaðarins hafa um langt skeið deilt um samkeppnishæfni orkufreks iðnaðar með tilliti til raforkuverðs. Deilurnar endurspeglast í fjölmiðlum þar sem raforkuverðið er ýmist sagt samkeppnishæft eða ósamkeppnishæft eftir því við hvern er rætt. En nú virðist sem sverðin hafi verið slíðruð. Ríkisfyrirtækið og SI hafa í þessum mánuði birt sameiginlegar greinar í þrígang þar sem lögð var áhersla á tækifærin sem felast í umhverfisvænni uppbyggingu á orkufrekum iðnaði. Og til þess að grípa tækifærin sem felast í grænni uppbyggingu þarf náið samstarf atvinnulífsins, stjórnvalda og annarra haghafa.

Fréttablaðið/Eyþór


Á ferð og flugi


Nú er ljóst að ÁTVR mun berjast með kjafti og klóm fyrir tilvist sinni. Ríkisfyrirtækið undirbýr beiðni um lögbann á hendur vefverslunum sem selja áfengi í smásölu hér á landi en tilefnið er vefverslun Santewines sem býður lægri verð og afhendingu samdægurs. Fyrirætlanir ÁTVR eru mjög óskýrar. Santewines er skráð í öðru landi, Frakklandi, eins og aðrar vefverslanir sem senda áfengi til neytenda á Íslandi. Munu lögmenn ÁTVR flakka á milli heimshorna til að angra vefverslanir og vínræktendur sem dettur í hug að senda áfengi til Íslands? Enn bætist við kostnaðinn sem fellur á neytendur vegna einokunartilburða

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis.
Fréttablaðið/Heiða

Samfélagsábyrgð

Í aðdraganda útboðs Síldarvinnslunnar veltu sumir lífeyrissjóðir fyrir sér hvort orðspors­áhætta fælist í því að fjárfesta í félaginu í ljósi þess að stærsti eigandinn, Samherji, er sakaður um alvarleg brot. Sjóðirnir hafa jú tileinkað sér hin svokölluðu UFS-gildi í síauknum mæli og Gildi er þar engin undantekning og því gæti komið sumum á óvart að sjóðurinn hafi fjárfest fyrir 10 milljarða í útboðinu. Aftur á móti var skráningin einkum til þess fallin að svara kalli um dreifðara eignarhald í sjávarútvegi. Það næst sumpart með aðkomu lífeyrissjóða að útgerðarfélögum og að því leytinu til gæti fjárfesting Gildis flokkast sem samfélagslega ábyrg fjárfesting frekar en hitt.