Eftir kröfuhafafund þrotabús WOW air er ljóst að skiptastjórarnir ætla að beina spjótum sínum að Skúla Mogensen. Skúli svaraði því sem sett var út á í skýrslu þeirra og sagði í leiðinni að hann hefði tapað 8 milljörðum á flugævintýrinu. Glæsihýsið að Hrólfsskálavör 2 á Seltjarnarnesi er hins vegar enn á hans nafni en Skúli leitar nú að kaupanda að fasteigninni sem er um 600 fermetrar að stærð. Um er að ræða eitt verðmætasta hús landsins en sagt er að ásett verð Skúla sé um 700 milljónir króna.

Sigurður-Ingi-21.2.jpg

Talaði af sér

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngumálaráðherra sagði í viðtali í síðustu viku að stjórnvöld hefðu metið það svo að ekki hefði verið rétt að stíga inn í þegar WOW air féll og það myndi líka gilda fyrir Icelandair ef sú staða kæmi upp. Það vekur furðu að ráðherra gefi til kynna að Icelandair geti lent í sömu stöðu og jafnframt er heldur óvarlegt að mála ríkið út í horn með því að útiloka öll inngrip. Flestir vita að það er ekki sama hvort um ræðir Jón eða séra Jón þegar til kastanna kemur á íslenskum flugmarkaði.

heiðar guðjónsson01.jpg

Enn ein lækkun

Fjarskiptafélagið og fjölmiðillinn Sýn hefur lækkað rekstrarhorfur sínar fjórum sinnum á rúmlega níu mánuðum. Sameining fjarskiptafyrirtækisins við fjölmiðlarekstur virðist enn vera að draga dilk á eftir sér og það endurspeglast í gengi hlutabréfanna. Eftir 8,3 prósenta lækkun í gær stendur verðið í 29,75 krónum samanborið við rúmlega 70 krónur vorið 2018. Forstjórinn Heiðar Guðjónsson hefur látið til sín taka með uppstokkun í yfirstjórn og hagræðingaraðgerðum frá því að hann tók við stjórnartaumunum í apríl. Ljóst er að hans bíður afar erfitt verkefni.