Nokkuð hefur gustað um Hafrannsóknastofnun síðustu misseri og undir árslok 2019 var ráðist í hagræðingaraðgerðir þar sem á annan tug starfsmanna var sagt upp störfum eða gerðir við þá starfslokasamningar vegna skipulagsbreytinga. Í þeim hópi var Þorsteinn Sigurðsson, fiskifræðingur og fyrrverandi sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafró, en hann var skömmu síðar ráðinn sem sérfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu. Þorsteinn sækist nú eftir endurkomu á Hafró og er einn af sex umsækjendum um starf forstjóra stofnunarinnar, sem var auglýst laust til umsóknar í ársbyrjun, en Sigurður Guðjónsson, sem hefur stýrt Hafró undanfarin fimm ár, er einnig þar á meðal. Búist er við því að hæfisnefndin skili niðurstöðum sínum í þessari viku en að sögn þeirra sem þekkja til er altalað að ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, hafi lofað Þorsteini forstjórastarfinu eftir að hafa ekki skipað hann í stöðu skrifstofustjóra sjávarútvegsmála í ráðuneytinu, sem hann sóttist eftir sl. haust.

Fréttablaðið/Valli

Hversu langt á að ganga?


Það er gleðiefni að faraldurinn sé í lægð. Þær fórnir sem þurft hefur að færa eru þó ekki smávægilegar. Nú í liðinni viku var stjórnarskrá landsins enn látin víkja fyrir sóttvarnasjónarmiðum, þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra féllst á tillögur sóttvarnalæknis um harðari aðgerðir við landamærin. Síðustu mánuði hefur jafnræðisreglan verið brotin með sjónarmiðum sem aðgreina bari frá veitingahúsum. Meðalhófsreglan hefur verið höfð að spotti með hinu mikla lögregluáreiti sem fjöldi fólks hefur orðið fyrir. Nú verður íslenskum ríkisborgurum hugsanlega meinaður aðgangur að landinu á grundvelli sóttvarnasjónarmiða. Skiptir stjórnarskráin engu máli lengur?

Kanónur Citi


Bankasýslan freistar þess að finna ráðgafa við sölu á eignar­­hlut ríkisins í Íslandsbanka. Stofnuninni bárust fjölmargar beiðnir, alls 23, frá innlendum fjármálafyrirtækjum og rótgrónum, erlendum fjármálastofnunum. Þeirra á meðal er Citi, en nokkuð í beiðni fjármálarisans vekur athygli. „Citi mun njóta reynslu ráðgjafa á borð við Lord Mervyn King og Anders Fogh Rasmussen, sem hafa mikla þekkingu á einkavæðingarverkefnum,“ segir í beiðni Citi. King var sem kunnugt er bankastjóri breska seðlabankans á árunum 2003 til 2013 og Rasmussen er fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur og framkvæmdastjóri NATO. Það skemmir ekki sölupunkt Citi að geta gripið til slíkra ráðgjafa.