Tómas Már Sigurðsson, næstráðandi Alcoa á heimsvísu, er sagður meðal þeirra sem er að finna á lista stjórnar Icelandair Group yfir möguleg forstjóraefni eftir brotthvarf Björgólfs Jóhannssonar. Fáir Íslendingar hafa klifið jafn hátt upp metorðastigann hjá erlendum stórfyrirtækjum og hann. Það er því eðlilegt að stjórn hugsi til Tómasar Más, sem kvæntur var Ólöfu Nordal heitinni. Fyrirtækin tvö eiga það sameiginlegt að vera ansi háð ytri aðstæðum. Markaðsvirði Aloca er reyndar rúmlega 890 milljarðar króna á meðan markaðsvirði Ice­landair Group er 40 milljarðar króna. Það er því ekki alltaf skref upp á við að taka við rótgrónum íslenskum fyrirtækjum.

Ströng skilyrði

Skilyrðin sem Samkeppniseftirlitið hefur sett fyrir yfirtöku Haga á Olís eru nokkuð ströng en Hagar þurfa meðal annars að selja frá sér þrjár Bónusverslanir, fimm bensínstöðvar Olís og ÓB og eina dagvöruverslun í Stykkishólmi. Athygli vekur að skilyrðin sem Hagar þurfa að gangast undir eru talsvert meira íþyngjandi en skilyrðin fyrir kaupum N1 á Festi en olíufélaginu ber samkvæmt þeim að selja fimm bensínstöðvar sem og eina verslun á Hellu. Munurinn þarf þó vart að koma á óvart enda hafa Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, og kollegar margoft lýst áhyggjum sínum af markaðsráðandi stöðu Haga.