Það fór ekki mikið fyrir tilkynningunni sem ASÍ og SA sendu frá sér fyrir helgi. Þar var greint frá því að samtökin hefðu gert breytingar á kjarasamningi aðila um lífeyrismál sem miða að því að árétta sjálfstæði stjórnarmanna í lífeyrissjóðum. Eftir breytingarnar er tilnefningaraðilum heimilt að afturkalla umboð stjórnarmanns í lífeyrissjóði á grundvelli laga og samþykkta lífeyrissjóðs. Tilkynna þarf stjórn sjóðsins með formlegum hætti rökstudda ákvörðum með tilvísun í viðeigandi lagaákvæði, samþykktir og reglur. Síðasta sumar lýsti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri því yfir að hann myndi beita sér fyrir því að sjálfstæði stjórnarmanna yrði tryggt til frambúðar. Tilefnið var,tilraunir VR til að hafa afskipti af ákvörðun LIVE um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair þar sem hótað var að afturkalla umboð þeirra stjórnarmanna sem færu gegn tilmælum VR. Ólíklegt er að verkalýðsforystan vilji flagga því sérstaklega að þessum breytingum hafi verið náð í gegn.

Nýr formaður

Breytingar verða á stjórn Marels á aðalfundi félagsins í næstu viku þegar Ásthildur Otharsdóttir, sem hefur verið formaður stjórnar frá 2013, hverfur á braut en Svafa Grönfeldt, sem á sæti í stjórnum Össurar og Icelandair, kemur ný í stjórnina. Talið er næsta víst að Arnar Þór Másson muni taka við stjórnarformennsku í félaginu eftir aðalfundinn en hann hefur setið í stjórn Marels samfellt frá árinu 2001. Arnar Þór er barnabarn Sigurðar Egilssonar, sem stofnaði fyrirtækið Sigurplast og var einn af þeim fyrstu sem keyptu hlutabréf í Marel, en fjölskylda hans fer í dag með samanlagt um tveggja prósenta hlut í félaginu, sem er metinn á um 14 milljarða króna.

Arnar Þór Másson, stjórnarmaður í Marel.

Af sem áður var

Þegar til stóð að taka upp þrefalda skimum á landamærum sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, að ekki væri hægt að halda því fram að aðgerðir væru strangar. „Ef eitthvað er þá held ég að aðgerðir hér séu með þeim vægari í Evrópu,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi þann 18. febrúar, degi áður en núgildandi fyrirkomulag tók gildi. Tæpum þremur vikum síðar, þann 4. mars, var sami maður spurður hvort dæmi væru um það erlendis að farþegar framvísuðu neikvæðum PCR-prófum greindust svo með COVID-19 á landamærum. Sóttvarnalæknir hafði ekki svör við því, enda væri fyrirkomulagið hér á landi strangara en víðast hvar annars staðar.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Fréttablaðið/Aðsend