Birgir Bieltvedt kom eins og stormsveipur á veitingamarkaðinn og fjárfesti í mörgum af skemmtilegustu stöðum landsins í ferðamannauppsveiflunni. Þegar harðnar á dalnum hefur Birgir ef til vill talið sig þurfa að leggja meira til málanna í rekstrinum. Það vekur því athygli að frumkvöðlar þriggja fyrirtækja í hans eigu hafa kosið að draga sig úr rekstrinum. Um er að ræða Snaps, Gló og Brauð & Co. Fyrir Birgi, sem býr í Kaupmannahöfn, var það af hinu góða að hafa hluthafa í daglegum rekstri fyrirtækjanna.

Freyr Hermannsson.

Freyr hættur

Það sætir tíðindum þegar stofnanir leita leiða til hagræðingar í rekstri en það gerðist á föstudaginn þegar Ásgeir Jónsson, nýskipaður seðlabankastjóri, ákvað að segja tveimur starfsmönnum bankans upp og leggja niður stöður þeirra. Á meðal þeirra var Freyr Hermannsson, sem hefur verið forstöðumaður fjárstýringar og markaðsviðskipta Seðlabankans undanfarin ár og var um tíma í framkvæmdahópi stjórnvalda um áætlun um losun hafta, en Freyr er sömuleiðis sonur Rannveigar Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra. Ásgeir var því fljótur að láta sverfa til stáls innan bankans og senda skýr skilaboð um hver sé aðal.  

Stefán Broddi Guðjónsson.

Óheillaþróun

Það er missir að greiningardeild Arion sem Stefán Broddi Guðjónsson fór fyrir af myndarbrag. Greinendur leika mikilvægt hlutverk fyrir verðmyndun á hlutabréfamarkaði. Það er dapurlegt fyrir örmarkað eins og Ísland að nýjar reglur ESB, MiFID II, verði þess valdandi að greinendum fækki. Því fleiri sem kjamsa á ársreikningum og öðrum verðmyndandi upplýsingum þeim mun meiri líkur á að markaðurinn sé skilvirkur. Það er slæm þróun að bönkum, sem geta rekið öflugar greiningardeildir, sé settur stóllinn fyrir dyrnar.
Fbl_Fyrirsogn 18/18: