Ekki eru allir á eitt sáttir um fyrirhugaða sölu Íslandsbanka. Sérfræðingateymi Alþýðusambands Íslands varar við illa meinandi fjárfestum, sem gætu lagt ferðaþjónustuiðnaðinn í rúst með því að ganga að veðum og selja eignir. Samkeppniseftirlitið, undir forystu Páls Gunnars Pálssonar, hefur efasemdir um þátttöku lífeyrissjóða þar sem eignarhald sjóðanna á tveimur viðskiptabönkum gæti hamlað samkeppni en núna er það einn og sami aðilinn – ríkissjóður – sem á meirihluta fjármálakerfisins. Samkeppniseftirlitið virðist ekki hafa teljandi áhyggjur af því. Aðilar úr ýmsum áttum hafa það svo á hornum sér að ekki muni fást hæsta mögulega verð fyrir bankann. Draumaniðurstaðan er þá væntanlega sú að ríkissjóður selji almenningi Íslandsbanka á háu verði. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem skattgreiðendur drægu stutta stráið í samskiptum sínum við hið opinbera.

Jón Eggert Hallsson.

Jón Eggert til Arctica


Jón Eggert Hallsson, sem hefur verið á íslenskum fjármálamarkaði um langt skeið, hefur tekið til starfa í markaðsviðskiptum hjá verðbréfafyrirtækinu Arctica Finance. Jón Eggert, sem var um tíma forstöðumaður eignastýringar Íslenskra verðbréfa, hefur áður meðal annars starfað hjá Kviku banka, Straumi fjárfestingabanka, ráðgjafarfyrirtækinu Expectus, J Bond Partners og Íslandsbanka. Á sama tíma hefur Valdimar Ármann, sem tók til starfa í fyrra í markaðsviðskiptum hjá Arctica, fært sig yfir í eignastýringu hjá félaginu.

Alexander Picchietti mun bera ábyrgð á samskiptum Verne Global við lykil- samstarfsaðila innan iðnaðarins.

Picchietti til Verne Global


Verna Global, sem rekur gagnaver á Ásbrú í Reykjanesbæ, hefur ráðið Alexander Picchietti í nýja stöðu stjórnanda stefnumótunar sem snýr að því að stofna til samstarfs og sambanda sem styðja við erlenda fjárfestingu á Íslandi. Picchietti mun bera ábyrgð á samskiptum Verne Global við lykil- samstarfsaðila innan iðnaðarins, byggja upp ný viðskiptasambönd sem mætt geta flóknum þörfum alþjóðlegra viðskiptavina fyrir hýsingu á reikni- og tölvuafli á Íslandi. Verne Global er nú þegar í samstarfi við leiðandi framleiðendur tölvubúnaðar í heiminum, svo sem Dell, Intel og NVIDIA sem og þá þjónustuaðila hérlendis sem aðstoða viðskiptavini Verne Global við innleiðingu, uppsetningu og viðhald á þeim búnaði. Picchietti hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2006 og hefur gegnt stjórnendastöðum hjá Sensa, Símanum, Basis og nú síðast sem stjórnandi skýjaþjónustu hjá Crayon.