Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sjá söguna í nýju ljósi og tengja saman Þjóðarsáttina um 1990 og fjármálahrunið 2008 með undraverðum hætti í svargrein við tillögum SA frá því í síðustu viku. Samkvæmt þessari söguskýringu þeirra leiddi Þjóðarsáttin til stóraukins ójafnaðar meðal Íslendinga, bæði mælt í tekjum og eignum áratugina á eftir. Formennirnir segja að slík aukning ójafnaðar hafi ekki bara verið ósanngjörn heldur einnig skapað hættu á efnahagslegum stórslysum á borð við fjármálahrunið sem var „bein afleiðing af taumlausri uppsöfnun auðs á fárra hendur“. Það er nefnilega það. Tímamótasamningum, sem klipptu á áralangar víxlhækkanir launa og verðlags, er kennt um fjármálakrísu sem átti sér stað átján árum síðar. Ekki er víst að formennirnir finni marga fræðimenn utan félagsstarfsins sem taka undir þessa söguskýringu.

Hvalreki

Davíð Helgason, einn af stofnendum Unity Technologies, er það sem nýsköpunarsenan á Íslandi hefur þurft: Tæknifrumkvöðull sem hefur byggt upp blómlegt fyrirtæki og er reiðubúinn að fjárfesta ríkulega í sprotum. Sumarið 2018 hafði Davíð að eign sögn fjárfest í um 50 sprotafyrirtækjum. Nú er hann að flytja til Íslands og mun eflaust fylgjast vel með innlendum frumkvöðlum. Davíð hefur ekki einungis fram að færa fé og mikla þekkingu heldur einnig djúp tengsl í Kísildalinn og víðar – af skala sem ekki hefur þekkst áður hérlendis. Davíð gæti virkað eins og væn stera­sprauta í sprotaumhverfið.

Davíð Helgason, einn af stofnendum Unity Technologies.

Smalley í stjórn

Breski lögmaðurinn Tim Small­ey, einn nánasti samstarfsfélagi kaupsýslumannsins Roberts Tchenguiz um árabil, hefur tekið sæti í stjórn Kviku Securities Ltd., dótturfélags bankans í Bretlandi. Á árunum 2003 til 2016 starfaði Smalley hjá fjárfestingafélagi Tchenguiz, R20, en undanfarin ár hefur hann stýrt fjárfestingafyrirtækjunum Blue­moon Investments og Stondon Capital. Stjórnarformaður dótturfélags Kviku í Bretlandi er Ármann Þorvaldsson, sem var á árum áður forstjóri Kaupþings þar í landi, en Tchenguiz var sem kunnugt er stærsti viðskiptavinur bankans. Umsvif Kviku í Bretlandi hafa vaxið mjög en í vor var greint frá því að félagið hefði aukið eigna­stýringarstarfsemi sína með kaupum á veðlánasjóðnum SQN Asset Finance Income Fund en eignir eru metnar á 70 milljarða.