Þeir sem vonuðust eftir því að stjórnvöld myndu nýta sér þau tækifæri sem skapast til hagræðingar við sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins urðu fyrir vonbrigðum þegar drög að frumvörpum vegna sameiningarinnar voru birt í síðustu viku. Þar stendur skýrum stöfum að störf hjá síðarnefndu stofnuninni verði ekki lögð niður heldur flutt til Seðlabankans. Því sé lagt til að allir starfsmenn haldi störfum sínum og það á óbreyttum launakjörum. Lendingin kemur þó lítið á óvart enda hafði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þvertekið fyrir að til stæði að fækka fólki við sameininguna.

Stóð tæpt

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, náði naumlega að knýja fram samþykki til að ganga til verkfalla. Í kosningunni samþykktu aðeins 52,25 prósent verkfallsaðgerðir en 45,33 prósent voru á móti. Niðurstaða kosninganna staðfestir það sem öllum er þegar ljóst: Það er engin stemning fyrir umfangsmeiri verkfallsaðgerðum á meðal félagsmanna VR. Sjálfur segist Ragnar Þór hafa vonast eftir meira afgerandi niðurstöðu. Kemur því ekki á óvart að formaðurinn hafi útilokað allsherjarverkföll hjá stéttarfélaginu þar sem allar líkur eru á því að félagsmenn VR myndu fella tillöguna.

Ríkisbanki til aðstoðar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, var harðorður í garð ríkisfyrirtækisins Isavia á aðalfundi flugfélagsins í síðustu viku. Sagði hann keppinauta hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli, og átti þá vitaskuld við skuld WOW air við Isavia, og það skekkti verulega samkeppnisstöðuna. Það var því kaldhæðni örlaganna þegar upplýst var um það í byrjun vikunnar að Landsbankinn hefði komið Icelandair Group til aðstoðar með tíu milljarða króna lánveitingu. Flugfélagið er þannig fjármagnað af báðum ríkisbönkum landsins.