Það er ekki úr vegi að norska félagið Fredensborg AS taki yfir leigufélagið Ölmu, sem áður hét Almenna leigufélagið og hefur nú verið sett í formlegt söluferli. Þykir mörgum það sennileg niðurstaða. Fredensborg tók sem kunnugt er yfir leigufélagið Heimavelli fyrr á þessu ári og fór fram á afskráningu þess úr Kauphöllinni. Arve Regland, fjármálastjóri Fredensborg AS, sagði við Markaðinn að félagið hefði áhuga á íbúðaleigumörkuðum í Evrópu. Hins vegar væri of snemmt að segja hvort af frekari fjárfestingum yrði hér á landi. Kaup á Ölmu, sem er stýrt af Maríu Björk Einarsdóttur og á um 1.200 íbúðir, færi langt með að tvöfalda eignasafn Fredensborg á Íslandi en Heimavellir áttu um 1.600 íbúðir við lok síðasta árs.

Björgunarpakki

Sveitarfélög, sem sum hver héldu illa um taumana þegar hagkerfið var í uppgangi, vilja meira fjármagn frá ríkinu en til boða stendur. Fremst í flokki fer Reykjavíkurborg, undir stjórn Dags B. Eggertssonar. Borgin sagði að það væru „hagstjórnarmistök“ að styðja ekki betur við fjárhag sveitarfélaga og þar með fjárfestingu þeirra. Hafa þarf í huga að ríkið hefur nú þegar komið sveitarfélögum til bjargar með auknum atvinnuleysisbótum, tekjutengingu þeirra og hlutabótaleiðinni. Útsvarið er jú aðaltekjustofn sveitarfélaga sem, ólíkt ríkinu, eru ekki að glíma við stórvægilegan tekjusamdrátt. Rausnarlegir björgunarpakkar fyrir sveitarfélög sem hafa farið illa að ráði sínu og gefið mikið eftir við samningaborðið í kjaraviðræðum er ekki ávísun á góða hagstjórn. Þvert á móti myndi það skapa öfugsnúna hvata. Sagan af litlu gulu hænunni kemur til hugar nema hvað að hænan horfir nú fram á 600 milljarða króna hallarekstur á komandi árum. Þá er eins gott að ráðstafa sínu með skynsamlegum hætti.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Blóðbað

Útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson sendi starfsmönnum Ríkisútvarpsins póst undir lok þarsíðustu viku þar sem greint var frá því að þremur hefði verið sagt upp hjá fyrirtækinu „í miklum hagræðingaraðgerðum“ sem nú standi yfir. Hefur þá alls fjórum verið sagt upp hjá RÚV á þessu ári, en uppsagnirnar eru sagðar til þess fallnar að „verja kjarnastarfsemi RÚV“. Undir lok síðasta árs var 271 stöðugildi á Ríkisútvarpinu samkvæmt ársreikningi. Um 1,5 prósent af vinnuafli fyrirtækisins hafa því misst vinnuna á þessu ári. Miðað við það blóðbað sem nú ríkir á hinum frjálsa vinnumarkaði myndu mögulega einhverjir kalla þetta ansi vel sloppið.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.