Það virðist sem svo að innan Viðreisnar gæti þráhyggju um íslensku krónuna. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, skrifaði grein í Morgunblaðið nýlega þar sem hún fullyrti að ríkisstjórnin hefði „yfirgefið“ krónuna með því að taka lán í erlendri mynt. Og ekki nóg með það heldur er lántaka í erlendri mynt yfirlýsing um að „ekki sé hægt að nota gjaldmiðilinn okkar.“ Öllu er snúið á haus. Það er stuðningsyfirlýsing við krónuna að taka lán í erlendri mynt fyrir innlendum kostnaði og endurspeglar hún trú ríkisstjórnarinnar á að krónan muni styrkjast. Við þetta bætist að seðlabankastjóri telur að ævintýraleg aukning á trausti í garð bankans á síðustu tveimur árum endurspegli að einhverju leyti aukna trú á krónunni.

Fréttablaðið/Anton Brink

Traustvekjandi


Kannanir um traust eða ánægju viðskiptavina eru sjaldan áhugaverðar nema fyrir starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. En niðurstöður nýrrar könnunar á trausti á Seðlabankanum eru athyglisverðar. Traustið tók stökk upp á við í fyrra og aftur stórt stökk í ár. Það fór upp um 14 prósentustig í fyrra og nú um 17 prósentustig. Samtals 31 prósent á tveimur árum. Geri aðrir betur! Niðurstöðurnar koma ekki algjörlega á óvart enda hefur almennt ríkt ánægja með störf Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og viðbrögð bankans við kórónafaraldrinum. Og það er ekki bara Ásgeir sem getur vel við unað. Mikilvægt er fyrir ríki með sjálfstæðan gjaldmiðil að þjóðin beri traust í garð Seðlabankans, og þá sérstaklega þegar Fjármálaeftirlitið er undir hatti bankans.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari


Furðurök


Gylfi Magnússon, prófessor og formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands, fullyrti að það væri hagstæðara fyrir ríkið að eiga Íslandsbanka og fá áfram arðgreiðslur en að selja hann og borga niður lán. Ríkið þyrfti kannski að borga 0-1 prósent raunvexti af lánunum og þar af leiðandi spöruðust ekki miklar vaxtagreiðslur með því að greiða upp lán. Þessa röksemdarfærslu er hægt að taka enn lengra. Væri þá ekki hagstæðara fyrir ríkið að taka lán til þess að gera yfirtökutilboð í Arion banka? Og jafnvel fleiri stórfyrirtæki? Hin hliðin á peningnum er auðvitað sú að í núverandi lágvaxta­umhverfi er auðveldara að selja eignarhlut ríkissjóðs og líklegra er að gott verð fáist fyrir hlutinn. Og ekki er hægt að leggja að jöfnu ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa annars vegar og bankareksturs hins vegar.