Seðlabankinn ásælist mjög stjórnarmenn ríkisbankanna þessa dagana. Flóki Halldórs­son hætti í stjórn Íslandsbanka fyrr í þessum mánuði eftir að hafa tekið við nýju embætti forstöðumanns skrifstofu skilavalds í Seðlabankanum og þá sagði Hersir Sigurgeirsson sig úr bankaráði Landsbankans í liðinni viku til þess að sinna ráðgjafarstörfum fyrir Seðlabankann. Hersir, sem er dósent í fjármálum við viðskiptadeild Háskóla Íslands, mun í störfum sínum fyrir bankann koma að lánamálum ríkissjóðs, boðaðri magnbundinni íhlutun á ríkisskuldabréfamarkaði og stýringu gjaldeyrisforðans. Það mæðir mikið á Seðlabankanum um þessar mundir og Hersir ætti því að hafa nóg fyrir stafni á næstu mánuðum en seðlabankastjóri hefur boðað að næsta ár verði ár peningaprentunar.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Fréttablaðið/Anton Brink

Slegið á þráðinn


Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hefur staðfest það sem marga grunaði. Seðlabankinn taldi ekki æskilegt að hefja magnbundna íhlutun fyrr en sjóðastýringarfyrirtækið Bluebay Asset Management hefði gengið frá allri sölu sinni á íslenskum ríkisskuldabréfum. Það kláraðist endanlega þegar Bluebay seldi ríkisbréf fyrir 11 milljarða króna á einu bretti í lok október. Kannski hafa nokkur orð frá seðlabankastjóra þrýst á sjóðsstjóra Bluebay að ganga frá sínum málum. Á Peningamálafundi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir í síðustu viku nefndi Ásgeir að mikið rót hefði komið á gengi krónunnar í haust sem mátti rekja til sölu erlends sjóðs á ríkisbréfum. „Við höfðum ekki val um annað en að taka þennan erlenda aðila út og enduðum á því að tala við hann beint,“ sagði seðlabankastjóri og bætti við að hann hefði trú á því að erlendir sjóðir kæmu brátt aftur inn á markaðinn.

Drífa Snædal, forseti ASÍ.


Lágmarkskrafa


„Landsbankinn greinir frá því að kaupmáttur hafi aukist um 30 prósent,“ sagði Sigríður Hagalín, fréttamaður RÚV, við Drífu Snædal, forseta ASÍ, í Kastljósi mánudagsins, um launaþróun á Íslandi síðastliðin ár. Drífa hélt því þá fram að ekki væri tekið tillit til verðbólgu á evrusvæðinu og verðbólgu á Íslandi og þessi kaupmáttaraukning færi því eftir því hvernig á málið væri litið. Svaraði Sigríður þá til „já“ og fór í næstu spurningu. Það verður að gera þá kröfu bæði til fréttamanna Ríkissjónvarpsins og verkalýðsleiðtoga að þeir viti að kaupmáttarmælingar taka tillit til verðbólgu.