Ingi Guðjónsson er orðinn stjórnarformaður Lyfju, stærstu lyfjakeðju landsins. Gengið var endanlega frá kaupum framtakssjóðs í rekstri Stefnis og fjárfestanna Inga og Daníels Helgasonar á Lyfju í síðustu viku, eftir að Samkeppniseftirlitið hafði lagt blessun sína yfir kaupin, en fyrirtækið var áður í eigu Lindarhvols, eignarhaldsfélags ríkisins. Auk Inga, annars stofnenda Lyfju, hafa þau Daníel, Arnar Ragnarsson, forstöðumaður sérhæfðra fjárfesta hjá Stefni, og Þuríður Björg Guðnadóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs hjá Nova, sest í stjórnina.

Stóð vaktina

Skoðanaskipti á hlutabréfamarkaði eiga ekki einungis að eiga sér stað í Kauphöll um verð fyrirtækja heldur einnig á hluthafafundum. Forsvarsmenn Gildis, með Árna Guðmundsson í broddi fylkingar, eru þeir einu á hlutabréfamarkaði sem hafa lagt orð í belg opinberlega varðandi yfirtöku HB Granda á Ögurvík. Sjóðurinn lagði fram skynsamlega tillögu fyrir hluthafafund, spurði til dæmis um hvert rekstrarhagræðið við yfirtökuna yrði og kallaði eftir ítarlegri og betri verðmötum. Stjórn HB Granda hefði átt að hafa svör við þeim spurningum á reiðum höndum fyrir fundinn.

Með helminginn hjá GAMMA

Mikið hefur farið fyrir gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar í garð GAMMA undanfarið og þá sér í lagi vegna umsvifa félagsins á leigumarkaði en sjóðir í stýringu GAMMA fara með eignarhaldið á Almenna leigufélaginu. Sólveig Anna Jónsdóttir og kollegar hjá Eflingu hafa farið mikinn í þessari umræðu og gagnrýnt það sem þau kalla „taumlausa græðgi fjármagnsaflanna“. Því vekur það nokkra undrun að um helmingur af þeim fjármunum sem Efling er með í stýringu hjá fjármálafyrirtækjum hafi verið hjá GAMMA. Fjármunir stéttarfélagsins í stýringu GAMMA námu tæplega 1,4 milljörðum í lok síðasta árs samkvæmt ársskýrslu.

Árétting: Í frétt á vef Eflingar, í tilefni af Skotsilfri Markaðarins, kemur fram að stjórn stéttarfélagsins hafi ákveðið í sumar að taka fjármuni félagsins úr stýringu hjá GAMMA. 

Sjá einnig: Efling færir 1,4 milljarða úr stýringu hjá GAMMA