Ákvörðun fjármálaeftirlits Seðlabankans um að veita Samherja undanþágu frá yfirtökuskyldu í Eimskip kom mörgum á óvart. Atburðarás síðustu vikna hefur verið hin sérkennilegasta. Aðeins tíu dögum eftir að hafa eignast yfir þrjátíu prósenta hlut í flutningarisanum og boðað yfirtökutilboð óskaði útgerðin eftir undanþágu frá yfirtökuskyldunni. Í kjölfarið seldi hún sig niður fyrir yfirtökumörkin og aðeins degi síðar var tilkynnt um þá ákvörðunar stjórnar Eimskips, sem Samherjinn Baldvin Þorsteinsson er í forsvari fyrir, að fella afkomuspá ársins úr gildi.

Í yfirlýsingu eftirlitsins sagði að með „undanþágunni [væri] ekki gengið á minnihlutavernd annarra hluthafa“. Erfitt er að sjá hvernig hagsmunir minni hluthafa eru tryggðir með því að ekki komi fram yfirtökutilboð. Gengi bréfa Eimskips féll um átta prósent í viðskiptum á miðvikudag, sama dag og fjármálaeftirlitið tilkynnti um ákvörðun sína, og stendur nú í 126 krónum á hlut en yfirtökutilboð Samherja hljóðaði upp á 148 krónur.

Gegn nefndinni

Nokkra athygli vakti á aðalfundi VÍS fyrir skemmstu þegar lífeyrissjóðirnir fóru gegn tillögu tilnefningarnefndar félagsins og kusu Mörtu Guðrúnu Blöndal, yfirlögfræðing ORF Líftækni, til áframhaldandi setu í stjórn. Sem dæmi dreifði Gildi atkvæðum sínum jafnt á Mörtu og Vilhjálm Egilsson og þá er Lífeyrissjóður verslunarmanna ekki heldur sagður hafa getað sætt sig við þá ákvörðun tilnefningarnefndar að mæla ekki með Mörtu. Stjórnarkjörið sætir þannig tíðindum, enda þekkjast afar fá dæmi þess að lífeyrissjóðir fari gegn slíkum nefndum.

Ljósmynd/VÍS

Ný stjórn Stefnis

Guðfinna Helgadóttir, sérfræðingur í viðskiptaþróun hjá Arion banka, og Jón Óttar Birgisson, framkvæmdastjóri Stöpla Advisory, tóku sæti í stjórn Stefnis, dótturfélags Arion banka, á nýlegum aðalfundi sjóðastýringarfélagsins. Stjórnin er nú skipuð þremur í stað fimm en Sigrún Ragna Ólafsdóttir gegnir áfram stjórnarformennsku.