Samkeppniseftirlitið undir stjórn Páls Gunnars Pálssonar lætur sig margt varða. Hagar þurftu sem kunnugt er að selja verslun Olís í Stykkishólmi til þess að þræða samrunann við Olís í gegnum nálarauga eftirlitsins. Verslunin var seld til Sigurðar Pálma Sigurbjörnssonar en reksturinn gekk ekki sem skyldi og nýir eigendur, sem reka borgarabúllu og pitsustað í bænum, tóku nýlega við. Þeir þurftu hins vegar að hljóta blessun Samkeppniseftirlitsins sem sá ástæðu til að kanna sérstaklega hvort þeir væru hæfir rekstraraðilar. Þeir hlutu að lokum blessun eftirlitsins ásamt vinalegum tilmælum um að huga að því að opnunartími og vöruframboð værí í samræmi við þarfir viðskiptavina.

Friðrik Ársælsson.

Frá Rétti til Arion

Friðrik Ársælsson, sem hefur undanfarin ár verið einn meðeigenda hjá lögmannsstofunni Rétti, hefur gengið til liðs við Arion banka þar sem hann mun starfa á lögfræðisviði bankans. Friðrik, sem útskrifaðist með LLM-gráðu frá Harvard-háskóla vorið 2014, starfaði áður meðal annars hjá embætti sérstaks saksóknara og lögmannsstofunni LOGOS. Þá hefur Friðrik einnig verið varamaður í stjórn Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2015.

Þórarinn Þorgeirsson.

Til Dranga

Þórarinn Þorgeirsson, sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings, hefur gengið til liðs við Dranga lögmenn sem eigandi. Drangi er sérhæfð lögmannsstofa sem sinnir málflutningi og verkefnum á réttarsviðum tengdum viðskiptalífinu. Í störfum sínum fyrir Kaupþing hafði Þórarinn meðal annars umsjón með lögfræðivinnu við endurskipulagningu og nauðasamning félagsins í kjölfar slitameðferðar þess auk tvíhliða skráningar Arion banka, sem þá var í meirihlutaeigu Kaupþings, á markað á Íslandi og í Svíþjóð. Á meðal annarra eigenda Dranga er Kolbeinn Árnason, sem var um tíma samstarfsmaður Þórarins hjá Kaupþingi.