Icelandair, undir stjórn Boga Nils Bogasonar, hefur náð langtímasamningum við flugmenn og flugvirkja en félagið kappkostar að ná yfir 20 prósenta hagræðingu í launakostnaði. Það er forsenda fyrir samkeppnishæfni félagsins að mati stjórnendanna. Fjárfestar hljóta þó að spyrja hvort hagræðingin sé nú þegar orðin úrelt miðað við gang mála hjá helstu keppinautum. British Airways hefur þannig ákveðið að reka og endurráða þúsundir flugliða svo unnt sé að lækka laun þeirra um helming. Ekki er útilokað að Icelandair verði áfram með ein hæstu launin í bransanum þegar upp er staðið.

Fordæmingin

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, þurfti að draga í land með fullyrðingar um Play eftir heimsókn til félagsins. Í kjölfarið fór hann fögrum orðum um umfang starfseminnar, metnað stjórnenda og kjörin sem félagsmenn VR eru á hjá Play. Ljóst er að Play hefur náð samningum við flugmenn og flugliða sem felur í sér mun lægri laun og mun meira vinnuframlag en hjá Icelandair. Það skýtur því skökku við að formaðurinn skuli styðja flugfélag sem hefur náð að þrýsta niður launum með slíkum hætti en á sama tíma hóta öllu illu þegar Icelandair reynir að knýja fram hagræðingu á launakostnaði.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Skortseldi bankana

Nicolai Tangen, verðandi forstjóri Norska olíusjóðsins, á það sameiginlegt með sjóðnum að hafa skortselt íslensku bankanna fyrir hrun. Forsvarsmenn Kaupþings sökuðu vogunarsjóð Tangens, Ako Capital, og fleiri um að bera út neikvæðar fréttir um Ísland þannig að þeir gætu hagnast á skortsölu í bönkunum. Olíusjóðurinn hefur beitt sér með æ virkari hætti í fjárfestingum sínum og má búast við að undir forystu vogunarsjóðsstjórans muni hann gera sig enn meira gildandi.