Gengið var frá sölu á sex herbergja orlofshúsi í eigu Arion banka, sem bankinn hafði boðið til sölu síðastliðið haust, í lok síðasta árs og fengust rúmlega 100 milljónir króna fyrir sumarhöllina. Aðeins æðstu stjórnendur Arion banka, sem er stýrt af Benedikt Gíslasyni sem var ráðinn bankastjóri fyrir um hálfu ári, höfðu haft afnot af húsinu undanfarin ár en það er um 172 fermetrar að stærð, er á 9,6 hektara eignarlóð og var byggt árið 2004.

Birgir Haraldsson.

Birgir til Akta

Birgir Haraldsson, sem var ráðinn til verðbréfafyrirtækisins Arctica Finance síðastliðið vor, stoppaði stutt við þar og hefur núna gengið til liðs við sjóðastýringarfyrirtækið Akta þar sem hann starfar sem sjóðstjóri blandaðra sjóða. Birgir, sem er hagfræðingur að mennt, hefur lengst af starfað á erlendum fjármálamörkuðum en á árunum 2010 til 2019 var hann hjá vogunarsjóðunum Caxton Associates og Harness Investment Group, fjárfestingarbankanum Jefferies og greiningarfyrirtækinu Nightberg.

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka.

Sendiráð áhugasöm

Kvika banki, sem Marinó Örn Tryggvason stýrir, flutti skrifstofur sínar yfir í Höfðatorgs­turninn í liðnum mánuði, meðal annars alla starfsemi GAMMA, dótturfélags bankans, sem áður var til húsa í fasteigninni að Garðastræti 37. Leitað er nú að kaupanda húsnæðisins, sem er um 680 fermetrar að stærð, en á meðal þeirra sem sýna því einkum áhuga eru sendiráð erlendra ríkja. Væntingar eru um að mögulega geti fengist um 500 milljónir fyrir húsið en um mitt síðasta ár var það bókfært á um 380 milljónir í reikningum GAMMA.