Brotthvarf Ernu Gísladóttir og Stefáns Árna Auðólfssonar úr stjórn Haga sætir tíðindum en þau höfðu setið hvað lengst stjórnarmanna í stjórn smásölurisans. Stjórninni hefur þannig verið skipt út með öllu á aðeins tveimur árum en í kjölfar aðalfundar Haga í næsta mánuði verður Davíð Harðarson, sem var fyrst kjörinn í stjórnina sumarið 2018, reynslumesti stjórnarmaðurinn. Er talið líklegt að Eiríkur S. Jóhannsson, stjórnarformaður Samherja, eins stærsta hluthafa Haga, taki við stjórnarformennsku í smásölurisanum af Ernu.

Eiginhagsmunir

Margir auglýsingamenn eru svekktir yfir því hafa ekki fengið að stýra umfangsmikill herferð til að laða að erlenda ferðamenn. Á tímum samdráttar í efnahagslífinu eru störf á auglýsingastofum í húfi. Eigendur Pipars, Guðmundur Hrafn Pálsson og Valgeir Magnússon, hafa látið í ljós gremju sína. Hún er skiljanleg. Á það ber að líta að það eru mun meiri hagsmunir undir að fá ferðamenn til Íslands. Samkeppnin á milli landa verður mikil þegar kórónuveiran sleppir takinu. Það er eðlilegt að erlend stofa hafi verið hlutskörpust í útboði enda með betri skilning á erlendum neytendum en heimamenn.

Ekki markmið

Sumir vinstrimenn halda róttækustu skoðunum sínum í skefjum á opinberum vettvangi til þess að missa ekki trúverðugleika. Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, er ekki í þeim hópi. Hún talaði fyrir því að allir ættu að vera á sömu launum og fyrir eignajöfnuði. Slíkt hefur margoft verið reynt og endar ætíð með ósköpum. Nema í hugarheimi margra í verkalýðsforystunni. Allsherjar jöfnuður kæfir framþróun og ógnar þar með heilbrigðiskerfinu og lífsgæðum landsmanna. Jöfnuður er ekki markmið, eins og Halla sagði. Hagsæld er leiðin fram veginn.

Fréttablaðið/Ernir